Hafa þurft að loka fyrirtækinu

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, kveðst ekki munu endurskoða ákvörðun um …
Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, kveðst ekki munu endurskoða ákvörðun um að hætta að skima. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef engan áhuga á því að fara út í einhverja útreikninga. Ég hef áður sagt að það kosti um 1,5 milljarða króna að reka Íslenska erfðagreiningu. Meðan á skimuninni hefur staðið höfum við þurft að loka öllu,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður hvernig hann fái út nær fimm milljarða króna kostnað vegna skimunar fyrirtækisins. 

Alls hefur fyrirtækið nú skimað um 74 þúsund manns auk þess að taka um 30 þúsund blóðsýni fyr­ir mót­efn­um. Hefur fyrirtækið því skimað rétt um 20% þjóðarinnar. Að hans sögn var nú nóg komið. Á einhverjum tímapunkti hafi verið nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að snúa sér að öðrum verkefnum. 

Engin ástæða til að endurskoða

„Við lokuðum fyrirtækinu til að verja starfsmennina til dæmis. Þetta er ekki okkar dagvinna, en nú er svo komið að við þurfum að sinna þeim skyldum. Þau eru búin að horfa á þennan faraldur í fjóra mánuði og ég hef gefið þeim sjö daga til að búa sig undir að taka við verkefninu,“ segir Kári. 

Spurður hvort til greina komi að endurskoða ákvörðunina kveður hann nei við. Sjálfur segist hann ekki sjá ástæðu til þess. „Hvers vegna ætti ég að gera það? Það var frábært að vinna með þessu fólki; Víði, Ölmu og Þórólfi, meðan á verkefninu stóð og það var full ástæða til að hjálpa til. Nú þurfum við hins vegar að fara að sinna okkar skyldum,“ segir Kári. 

Svandís aldrei haft samband

Aðspurður segir Kári að ekki hafi verið haft samband til að kanna hvort hægt væri að snúa ákvörðuninni. Engin forsenda sé fyrir slíku. Lítil samskipti milli hans og Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra séu jafnframt ekki ný af nálinni. Frá því að skimun hófst hafi hún aldrei haft samband við fyrirtækið. 

„Heilbrigðismálaráðherra hefur aldrei haft samband á meðan við vorum að skima. Hún hefur aldrei talað við okkur meðan á þessu hefur staðið. Á þessum tíma höfum við skimað um 74 þúsund manns,“ segir Kári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert