Enn ein sumarlægðin

Kort/Veðurstofa Íslands

Lægð mun myndast djúpt suðvestur af landinu sem aukast mun í umfangi aðfaranótt miðvikudags og verður þá komin langleiðina upp að suðvesturhorninu að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, en lægðin hefur í för með sér hvassa austanátt og meðalvind yfir 20 metra á sekúndu.

„Þá fer að hvessa, sérstaklega með suðausturströndinni og í Öræfasveit. Frá því snemma á miðvikudagsmorgun og eitthvað fram yfir hádegi verður ansi hvöss austanátt og þá getur maður séð meðalvind yfir 20 metra og hviður jafnvel upp undir 30-35,“ segir Óli Þór og bætir því við að um enn eina sumarlægðina sé að ræða.

Mun rigna um allt land

Mun lægðinni fylgja töluvert vatnsveður, sérstaklega á Suðausturlandi.

„Það mun rigna um allt land en hann verður mun hægari í öðrum landshlutum  burtséð frá Suðausturlandi, sérstaklega í kringum Öræfi. Þetta er þekkt svæði í þessari vindátt,“ segir Óli.

Undir hádegi á miðvikudag mun vindurinn snúast til suðlægrar áttar og þá verður einna hvassast á Vestfjörðum.

„En ekkert vonskuveður en það verður rigning áfram um allt land. Á miðvikudagskvöld er í raun þannig lagað séð ekkert orðinn mikill vindur lengur á landinu og vindáttin orðin hásunnan þannig að þá fer hún að skána aftur á Norðaustur- og Austurlandi sérstaklega og það er svolítið rauði þráðurinn út vikuna,“ segir Óli.

„Það verða viðloðandi sunnan- og suðvestanáttir og fremur milt og vætusamt sérstaklega um landið vestanvert en þurrt og hlýtt á Norðaustur- og Austurlandi,“ segir Óli Þór.

Hlýtt fyrir norðan

Lægðin dregur með sér hlýrra loft sunnan úr hafi og þá mun hlýna vel fyrir norðan og austan.

„Það má segja að þessi lægð dragi með sér hlýrra loft sunnan úr hafi og þegar hún verður búin að skutlast yfir landið þá læsir hún veðrinu í þessum sunnan-suðvestanáttum og hlýja loftið fær þá að leika norður yfir land og þá hlýnar nokkuð vel fyrir norðan og austan en við verðum áfram í einhverjum suðlægum sunnan- og suðvestanáttum og frekar blautu veðri,“ segir Óli Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert