Krefst viðbragða N1 vegna mengunarslyss á Hofsósi

N1 Festi
N1 Festi Ljósmynd/Aðsend

Byggðarráð sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á N1 að tilkynna mengunartjón sem varð þegar bensíntankur á Hofsósi lak með þeim hætti sem vera ber. Þetta kemur fram í fundargerð byggðarráðs Skagafjarðar

Fréttastofa RÚV greindi frá því í desember á síðasta ári að fimm manna fjölskylda hefði neyðst til að flytja úr húsi sínu við Suðurbraut 6 á Hofsósi vegna mikillar bensínlyktar eftir að tankur bensínstöðvar N1 við Suðurbraut 9 lak. Í kjölfarið bannaði Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra afnot af húsinu.

Leggur áherslu á að N1 uppræti mengunina

„Ljóst er að umfang mengunar frá bensíntanki N1 að Suðurbraut er mikið og hefur m.a. haft þau áhrif að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hefur bannað afnot af íbúðarhúsnæðinu að Suðurbraut 6 þar til fullnægjandi hreinsun hefur átt sér stað. Mengunin hefur auk þess haft áhrif á starfsemi fyrirtækja á svæðinu,“ segir í fundargerðinni.

Þar segir einnig að sveitarfélagið Skagafjörður hafi ríkra hagsmuna að gæta sem eigandi lóða og veitumannvirkja í nágrenni við bensínstöðina. Sveitarfélagið leggi því ríka áherslu á að N1 uppræti þá mengun sem „ljóst er að orðið hefur af völdum bensínleka úr tanki N1 við Suðurbraut 9 og komist alfarið fyrir mengunina hvar sem hana er að finna.“

Litið alvarlegum augum að N1 tilkynnti ekki tjónið

Til grundvallar þeim aðgerðum þurfi að liggja ítarlegar rannsóknir á umfangi mengunarinnar og jarðlögum á svæðinu enda „grafalvarlegt mál að ræða þegar svo virðist sem mengunin leiti langt frá upptökum sínum.“

„Nú er orðið ljóst að N1 hefur ekki tilkynnt mengunartjónið til Umhverfisstofnunar með þeim hætti sem lög kveða skýrt á um og lítur byggðarráð það alvarlegum augum. Skorar byggðarráð á N1 að tilkynna mengunartjónið strax með þeim hætti sem vera ber,“ segir jafnframt í fundargerðinni.

Byggðarráð hefur falið sveitarstjóra Skagafjarðar að fylgja málinu eftir gagnvart N1 og Umhverfisstofnun.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi sem er móðurfélag N1, hefur …
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi sem er móðurfélag N1, hefur fundað með byggðarráði vegna málsins. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert