Fjárframlag Íslands veltur á þarfagreiningu

Sprengingin á þriðjudag olli gríðarlegri eyðileggingu.
Sprengingin á þriðjudag olli gríðarlegri eyðileggingu. AFP

Ísland mun veita sérstakt fjárframlag til neyðaraðstoðar vegna ástandsins í Beirút í kjölfar hamfarasprengingar sem varð á þriðjudag. Hvert framlagið fer veltur á greiningarþörf sem nú er unnið að á vettvangi. 

„Þær alþjóðastofnanir sem Ísland starfar með eru enn að meta þörfina á vettvangi til fulls og hvernig þessi fjárhagsaðstoð mun nýtast sem best,“ segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. 

„Neyðaraðstoðin er að sjálfsögðu þegar hafin og þá er verið að nýta þessa sjóði sem Ísland greiðir nú þegar í, til dæmis Lebanon Humanitarian Fund og neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna, en Ísland hefur greitt í þessa sjóði um nokkurra ára skeið og þau framlög hafa vafalaust komið sér vel,“ segir Sveinn. 

Enn liggur ekki fyrir hve háa fjárhagsaðstoð Ísland mun veita. 

„Ísland ætlar svo að leggja fram sérstakt framlag þegar þarfagreiningu á vettvangi er lokið og þegar beiðni á grunvelli hennar kemur fram verður hægt að koma því framlagi til skila. Sem stendur er óvíst hvort að þetta framlag fari í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna eða aðrar alþjóðastofnanir, það veltur á því hvar þörfin er mest,“ segir Sveinn, en samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum sér um þarfagreiningu fyrir undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert