Sex til sjö fóru á veitingastað og smituðust

Veitingastaðurinn sem fólkið smitaðist á er í miðborg Reykjavíkur.
Veitingastaðurinn sem fólkið smitaðist á er í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Uppruni annarrar hópsýkingarinnar af þeim tveimur sem komu upp í júlí hefur verið rakinn til veitingastaðar í miðborg Reykjavíkur. Sex til sjö einstaklingar, allt ungt fólk, greindust eftir að hafa sótt staðinn en þar til nú var uppruni smitanna óljós enda tengdust hinir smituðu ekki. Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. 

Vísir greindi frá því fyrr í dag að fólkið hefði smitast á bar í miðborg Reykjavíkur, Jóhann segir þó í samtali við mbl.is að um sé að ræða veitingastað, ekki bar. 

Eiga eftir að rekja eitt hópsmit

Uppruni hins hópsmitsins, sem er stærra, er enn á huldu, og er það hópsmit eina hópsmitið sem á eftir að rekja, að sögn Jóhanns. 

En hvaða máli skiptir það að uppruni annars hópsmitsins sé nú ljós? 

„Þegar þessar tvær hópsýkingar voru í gangi sögðum við að við hefðum ekki fundið upprunann en í öðru málinu er búið að finna upprunann sem er þá þessi veitingastaður,“ segir Jóhann. 

Vitið þið hvers vegna þetta fólk smitast þarna, var um of mikla nálægð að ræða?

„Það eru alla vega einhverjir sameiginlegir snertifletir,“ segir Jóhann.

Smitrakningarteymið náði fljótt utan um hópsýkinguna „þannig að það breiddist ekkert frekar út“, segir Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert