Skoða hvort Færeyjar séu áhættusvæði

38 tilfelli kórónuveirunnar komu upp í Færeyjum í gær sem …
38 tilfelli kórónuveirunnar komu upp í Færeyjum í gær sem er mesti fjölda smita frá upphafi faraldursins. Myndin er af Vogi á Suðurey. mbl.is/Sigurður Bogi

Til skoðunar er að setja Færeyjar á lista yfir áhættusvæði vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita þar í landi. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Hingað til hafa Færeyingar getað komið til landsins án þess að fara í skimun á landamærum eða fjórtán daga sóttkví.

38 tilfelli kórónuveirunnar komu upp í Færeyjum í gær og er um að ræða mesta fjölda smita sem hefur komið upp þar frá upphafi faraldursins. 

„Það eru ekki góðar fréttir frá Færeyjum því miður. Þeir eru greinilega að fara upp og ég held að þetta þýði það að við þurfum að fara að spá í það hvort við þurfum að breyta skilgreiningunni á Færeyjum hjá okkur,“ segir Þórólfur og jánkar því að til skoðunar sé að setja Færeyjar á lista yfir áhættusvæði. 

Óljóst hvort greiningargetan sé næg til að setja löndin aftur á listann

Þeir sem hafa dvalið í Noregi, Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi, Grænlandi og Færeyjum eru nú undanskilnir skimun á landamærum við komuna til landsins. Aðrir þurfa að fara í skimun þar eða í 14 daga sóttkví. 

Spurður hvernig þjóðirnar sem undanskildar eru skimunum á landamærum standi nú segir Þórólfur að Noregur komi ágætlega út og Danir og Þjóðverjar standi talsvert betur en  Íslendingar hvað varðar nýgengi smita.

Myndum við ráða við það að setja öll þessi lönd aftur á lista yfir áhættusvæði, sem yrði til þess að þau sem koma frá löndunum þurfi að fara í skimun á landamærunum eða sæta 14 daga sóttkví? 

„Ég þori ekki alveg að fullyrða um það. Við þurfum aðeins að reikna það út til að sjá hvernig það lítur út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert