„Ég æpti bara: Jarðskjálfti!“

Dalvík. Þetta er stærsti skjálfti á svæðinu frá 19. júlí, …
Dalvík. Þetta er stærsti skjálfti á svæðinu frá 19. júlí, en þá varð skjálfti af stærðinni 4,4. Skjálfta­virkni hef­ur verið viðvar­andi á þessu svæði frá því í júní og eru þessi skjálft­ar hluti af þeirri virkni.

„Ég var nýlega sofnuð og svo bara vakna ég við rosalegar drunur og hristing. Svo kemur svakalegt högg á eftir, eins og höggbylgja. Í svefnrofunum hélt ég að þeir væru farnir að vinna þeir sem eru að leggja göngustíg hérna fyrir utan en síðan glaðvaknaði ég bara, áttaði mig á þessu og leið mjög illa,“ segir Kristín Aðalheiður Símonardóttir, búsett á Dalvík.

„Ég æpti bara: Jarðskjálfti!“

Jarðskjálfti af stærð 4,6 varð klukkan 3.42 í nótt 11 kílómetra norðvestur af Gjögurtá, sem fannst í Eyjafirði, Skagafirði og víðar um Norðurland. Klukkan 3.52 varð eftirskjálfti af stærðinni 3,7.

Kristín var sofandi ásamt eiginmanni og börnum á heimili sínu á Dalvík þegar skjálftinn varð og hún lýsir því að það hafi verið óhugnanlegt að vakna um miðja nótt við þessa atburðarás.

„Það er allt öðruvísi að upplifa þetta á daginn en að vakna á nóttunni. Mér fannst það verulega óhugnanlegt. Dætur mínar tvær voru sofandi á neðri hæðinni og önnur þeirra kom hlaupandi upp. Henni stóð ekki á sama. Hún stóð svo við rúmgaflinn enn þá þegar seinni skjálftinn kom,“ segir Kristín.

„Virkilega óþægilegt“

Kristín segir að fleiri en hún hafi vaknað við skjálftann um nóttina og umræður hafi skapast á netinu meðal íbúa. Hjá henni fóru munir ekki að hrynja úr hillum og allt í eðlilegu fari innanhúss, ólíkt því sem gerðist í stærri skjálfta á svæðinu í júní, þar sem bollar og annað duttu úr hillum á kaffihúsi Bakkabræðra, sem Kristín á og rekur.

„En þetta er virkilega óþægilegt og maður veltir fyrir sér hvað verður. Hvort það er aftur að koma svona hrina. Þá er alla vega gott að vera meðvitaður um það og fara yfir öryggisatriðin,“ segir Kristín.

Fjölmenni mikið á fiskidegi á Dalvík hér um árið.
Fjölmenni mikið á fiskidegi á Dalvík hér um árið. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Það er annars tómlegt um að litast á Dalvík ólíkt því sem verið hefur um svipað leyti önnur ár. Fiskidagurinn mikli ætti að vera í dag en er það ekki. Þrátt fyrir það er nokkuð um að vera á tjaldstæðinu að sögn Kristínar, þó að ekki fari sögum af því hvort jarðskjálftinn hafi vakið fólkið þar af værum svefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert