Tvískipt veðurspá fyrir landið í komandi viku

Á næstu dögum er gert ráð fyrir fínasta sumarveðri á …
Á næstu dögum er gert ráð fyrir fínasta sumarveðri á Norðausturlandi og geta íbúar Raufarhafnar jafnvel búist við að hitinn fari langleiðina í 24°C. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gera má ráð fyrir rigningu víðast hvar um landið í komandi viku ef frá er talið á Norðausturlandi. Þar má á hinn bóginn gera ráð fyrir umtalsvert sumarlegu veðri og gæti hitastigið verið um og yfir 20°C og jafnvel slegið í 24°C víða í landshlutanum á þriðjudaginn. Vesturhluti landsins fær mestu úrkomuna.

Arnór Tumi Jóhannsson, verðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að suðvestlægar áttir verði ríkjandi í vikunni. Með þeim muni blotna reglulega víðast hvar um landið. Þannig segir hann að á morgun megi gera ráð fyrir rigningu á suður- og vesturhluta landsins. Á þriðjudaginn sé svo útlit fyrir hraustlega rignignu á vesturhluta landsins.

Norðausturhluti landsins mun hins vegar að mestu sleppa við vætu þessa daga og víða á þessum hluta landsins má gera ráð fyrir yfir 20°C, jafnvel á hálendinu norður af Vatnajökli. Á völdum stöðum megi svo gera ráð fyrir að hitinn geti slegið upp í 24°C og nefnir hann Egilsstaði og Hérað sem dæmi, en líka víðar í þessum landshluta.

Útlitið er aðeins skárra á miðvikudaginn fyrir þá sem ekki verða á Norðausturlandi, en þá ætti aðeins að vera lítilsháttar væta á vesturhluta landsins. Hins vegar verður áfram þurrt að mestu á austurhluta landsins.

Íbúar á vesturhluta landsins mega búast við rigningu stærstan hluta …
Íbúar á vesturhluta landsins mega búast við rigningu stærstan hluta vikunnar. mbl.is/​Hari

Samkvæmt spá Veðurstofunnar er fimmtudagurinn svipaður þriðjudeginum. Talsverð rigning á vesturhluta landsins, en minni eða engin úrkoma á austurhlutanum. Þá gæti hitastigið aftur farið um og yfir 20°C á Norðaustur- og Austurlandi.

Á föstudaginn er svo spáð björtu veðri um allt land. Nokkuð mildu á vesturhluta landsins, en hlýtt austanlands og norðanlands.

Eins og greint var frá fyrr í kvöld hefur verið úrhellisrigning á Suðurlandi í dag og eru miklir vatnavextir í ám og vatnsföllum á hálendinu sunnanlands. Arnór segir að búast megi við því að vöð yfir ár verði illfær eða jafnvel ófær á Suður- og Vesturlandi á komandi dögum. „Það mun vaxa frekar en minnka í ám á komandi dögum,“ segir hann og varar sérstaklega við hálendinu á Suðurlandi.

Mikið hefur rignt á Suðurlandi í dag og í gær …
Mikið hefur rignt á Suðurlandi í dag og í gær og hækkaði yfirborð Krossár um 25 cm á þremur klukkustundum. Ljósmynd/Þóra Björg Ragnarsdóttir

Vegna sunnanáttarinnar sem hefur verið ríkjandi í dag hefur mikil úrkoma fallið á Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul og fylgja því miklar leysingar í ám sem falla frá þeim jöklum. Var því meðal annars ófært um Krossá í dag og Hvanná og Steinholtsá á leiðinni inn í Bása aðeins færar mikið breyttum bílum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert