Misjöfn staða á heyskap nyrðra

Sláttur. Heyskapurinn gengur ekki jafn vel alls staðar.
Sláttur. Heyskapurinn gengur ekki jafn vel alls staðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heyskapur í Svarfaðardal gengur vel og þessa dagana eru bændur þar að byrja seinni slátt sumarsins.

„Eftir fyrri slátt sem flestir bændur hér luku um miðjan júlí báru menn aftur á túnin og að undanförnu hefur hér verið rigning og hlýtt í veðri. Við slíkar aðstæður verður sprettan alveg ævintýraleg svo tala má um sprengingu. Maður sér mun dag frá degi,“ segir Trausti Þórisson, bóndi á Hofsá.

„Uppskera þessa sumars verður góð. Sjálfur er ég núna hér á akrinum að reyna að ná saman grænfóðri sem er nánast að spretta úr sér. Flestir eru annars að ná heyi af túnum og í því brasi eru menn hér stundum langt fram í september, þó næringargildi heyja sem nást þá sé ekki alltaf mikið. En allt er þetta ágætt kropp,“ segir Trausti í umfjöllun um horfur í heyskap í Morgunblaðinu í dag.

Staðan á heyskap í Þingeyjarsýslum nú er um margt tæp, segir Atli Vigfússon, bóndi á Laxamýri í Aðaldal. Í sveitum þar nyrðra lögðust svell víða yfir tún í vor svo nú eru þau mörg kalin. Telur Atli að slægjur af sumum túnanna verði nú sjálfsagt ekki nema um helmingur þess sem sé í meðalári. Við þetta bætist svo að mikið hafi rignt á svæðinu í júlímánuði og þá hafi verið lítið heyjað.

„Núna er hlýtt og þurrt hér á svæðinu. Haldist veður hér skaplegt þessa vikuna getur það gert gæfumuninn. En sem dæmi um stöðu mála núna er ég að hirða af kölnum túnum hér á Laxamýri og fæ af þeim 150 heyrúllur, í stað 300 í fyrra,“ segir Atli. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert