„Tók meðvitaða ákvörðun“

Þeir Torstein Lindquister héraðssaksóknari, vinstra megin, og Bjørn Andre Gulstad, …
Þeir Torstein Lindquister héraðssaksóknari, vinstra megin, og Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, fluttu lokaræður sínar á síðasta degi aðalmeðferðar Mehamn-málsins í dag og stóð þinghald fram undir kvöld. Vænta má dóms á næstu þremur vikum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ákærði hafði nægan tíma og tók meðvitaða ákvörðun,“ sagði Torstein Lindquister héraðssaksóknari þegar þeir Bjørn Gulstad verjandi tókust enn á í Mehamn-málinu í dag, í síðasta sinn fyrir héraðsdómi en aðalmeðferð málsins lauk undir kvöld og tók Gulstad sér þrjár klukkustundir í lokaræðu sína að sögn áhorfanda í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø sem mbl.is ræddi við fyrir skömmu.

Hafnaði saksóknari þeirri skýringu varnarinnar að slys hefði orðið þegar Gunnar Jóhann Gunnarsson heimsótti Gísla Þór Þórarinsson hálfbróður sinn að morgni 27. apríl í fyrra í Mehamn og þeir tókust á um haglabyssu sem Gunnar hafði meðferðis.

Kveður atburðarás styðja ásetning

Kvað saksóknari langa rás atburða, þar á meðal fjölda hótana Gunnars í garð Gísla, dagana fyrir atburðinn, sýna fram á að ákæran um manndráp af ásetningi væri hæfilega sett fram og gerði kröfu um 13 ára fangelsisdóm í lokaræðu sinni.

Gulstad mótmælti mati ákæruvaldsins harðlega og benti á fjölda gagna í málinu, svo sem þá niðurstöðu rannsóknarlögreglunnar Kripos að skotvopnið hefði verið haldið galla sem gerði það að verkum að mögulegt væri að hleypa skoti af því án þess að taka í gikkinn. Væri því skýring ákærða, sem hann hefði haldið sig við frá fyrstu yfirheyrslu, um að skot hefði hlaupið af þegar Gísli Þór greip til vopnsins, fullkomlega trúverðug.

Kåre Skognes héraðsdómari segir dóms að vænta á næstu þremur …
Kåre Skognes héraðsdómari segir dóms að vænta á næstu þremur vikum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Benti Gulstad enn fremur á að ætlaði maður sér virkilega að ráða annan af dögum með skotvopni skyti sá varla í fót hins. Hótanir frá því fyrir atburðinn segðu ekkert um hvað í raun gerðist á staðnum. Hvatti Gulstad að lokum Kåre Skognes héraðsdómara og meðdómendur hans til að miða refsingu sína við fjögur og hálft til fimm ár af þeim sex ára refsiramma sem manndráp af gáleysi býður upp á.

Geri sér ljóst að háttsemi geti haft banvænar afleiðingar

„Strax eftir handtökuna sagðist ákærði hafa drepið bróður sinn án þess að minnast nokkuð á að það hefði verið slys,“ sagði saksóknari og kvað alla hegðun Gunnars þá um nóttina hafa bent til þess að hann hefði ákveðið atburðarásina af kostgæfni.

Rakti hann ferðir Gunnars sem lokið hefði heima hjá Gísla þar sem hann beið þess vopnaður að húsráðandi kæmi heim. Benti Lindquister á að manndráp gæti verið af ásetningi þótt ákærði hafi ekki verið harðákveðinn í að ráða öðrum bana. Ásetningurinn miðist við að sakborningur geri sér ljóst að háttsemi hans geti hugsanlega haft banvænar afleiðingar og taki engu að síður meðvitaða ákvörðun um að halda áfram. Sagði Lindquister útilokað að Gunnar hefði ekki íhugað þau málalok sem urðu raunin.

Mette Yvonne Larsen réttargæslulögmaður spáði 13 til 15 ára dómi …
Mette Yvonne Larsen réttargæslulögmaður spáði 13 til 15 ára dómi í Mehamn-málinu þegar mbl.is ræddi við hana. Saksóknari gerði í dag kröfu um 13 ár og verjandi krafðist fjögurra og hálfs til fimm ára svo mikið ber í milli. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mette Yvonne Larsen, réttargæslulögmaður brotaþola málsins, kvaðst fallast á það með ákæruvaldinu að útilokað væri að um slys hefði verið að ræða. Aðkoma Larsen að málinu snýr einkum að bótakröfu Elenu Undeland, fyrrverandi kærustu Gísla, og barna þeirra Gunnars, auk erfðamála, en Larsen á sér langan starfsferil sem verjandi og sagði í samtali við mbl.is á dögunum að hún reiknaði með 13 til 15 ára dómi, maður kæmi ekki með hlaðna haglabyssu ætlaði hann sér ekki að gera neitt.

Skognes héraðsdómari kvaðst reikna með að dómur í Mehamn-málinu lægi fyrir á næstu þremur vikum. Miðað við hve mikið hefur borið í milli í málatilbúnaði sóknar- og varnarhliðar og væntingum um refsingu má telja víst að málinu verði áfrýjað til Lögmannsréttar Hálogalands í Tromsø.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert