Mótmæltu aðgerðum sóttvarnayfirvalda

Nokkrir mótmælenda á Austurvelli í dag.
Nokkrir mótmælenda á Austurvelli í dag. Ljósmynd/Aðsend

Fólk kom saman á Austurvelli í dag til þess að mótmæla sóttvarnaráðstöfunum stjórnvalda. Um 20-30 manns eru sagðir hafa mætt og segir Helga Birgisdóttir, ein mótmælenda, í fréttatilkynningu um málið að hún hafi fengið sér göngutúr í fulltingi vinkvenna sinna, til þess að eiga umræðu um aðgerðir stjórnvalda. Hún segist þó ekki vera að mótmæla neinu.

„Ég fékk þá hugdettu í göngutúr með sjálfri mér síðasta laugardag að mæta með skilti niður á Austurvöll þar sem ég mótmælti engu, en mælti með mannréttindum vegna áhuga míns á að opna umræður vegna covid,“ segir Helga í tilkynningunni.

„Nei við sóttkví“

Myndir frá því síðdegis í dag bera þó með sér að þar hafi fólk verið að mótmæla sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Einn mótmælandi hafði með sér skilti sem á stóð á ensku „Segið bara nei, nei við sóttkví, nei við útgöngubanni, nei við andlitsgrímum, nei við sýnatöku og nei við bóluefni.“

Að virða ekki reglur um sóttkví er brot á sóttvarnarlögum á Íslandi og fólk sem það gerir getur átt von á að vera sektað ef brotið er alvarlegt.

Aðgerðir stjórnvalda líka skaðlegar

Helga segir að ekki sé kórónuveiran það eina sem skaðlegt er. Aðgerðir stjórnvalda geti einnig haft það í för með sé að heilsu fólks hraki.

„Það er staðreynd að sjálfsvígum hefur fjölgað, kvíði hefur vaxið og heimilisofbeldi aukist svo fátt eitt sé nefnt, og við höfum miklar áhyggjur af þeim hertu reglum sem verða mögulega settar á þjóðina á næstunni,“ segir Helga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert