Krefjast afturköllunar á rekstrarleyfum spilakassa

Samtök áhugafólks um spilafíkn sendi bréf til allra þingmanna þar …
Samtök áhugafólks um spilafíkn sendi bréf til allra þingmanna þar sem þess er krafist að leyfi til rekstur spilakassa verði kölluð aftur. Árni Sæberg

„Samtök áhugafólks um spilafíkn líta svo á að hagsmunum spilafíkla hafi verið fórnað til að afla tekna samtökum, sem að eigin sögn vinna í þágu almannaheillar og mannúðar. Augljóst er að sú almannaheill og mannúð nær ekki til fólks sem haldið er spilafíkn,“ segir í bréfi sem Samtök áhugafólks um spilafíkn sendi á alla þingmenn í dag. 

Samtökin krefjast þess í bréfi sínu til þingmanna að leyfi til rekstur spilakassa verði afturkölluð. Í erindinu er saga leyfisveitinga fyrir rekstri spilakassi rakin en hún nær aftur til ársins 1994. Í dag hafa Happdrætti Háskóla Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda undir sameignarfélaginu Íslandsspil, leyfi til að reka svokallaða söfnunarkassa. 

Sakleysislegt nafn á alvarlegum hlut

„Yfirbragð nafnanna sem spilakössunum voru gefnir; „happdrættisvél“ og „söfnunarkassi,“ er sakleysislegt. Þau gefa ekki til kynna að um sé að ræða úthugsaða spilatækni, sem er sérstaklega þróuð til að notendur ánetjist „leikjunum“ sem spilakassarnir bjóða upp á, enda voru spilakassar á þeim tíma mun sakleysislegri tæki en þeir nú eru,“ segir í bréfinu.

Samtökin benda á að tæknin og leikirnir hafi þróast og segja þá verða sífell meira ávanabindandi, það sé viðurkennt af framleiðendum spilakassa. 

„Ætla má að alþingismenn hafi treyst því að stjórnendur þeirra bæru hag þeirra sem notuðu spilakassana fyrir brjósti, enda er um að ræða samtök sem gefa sig út fyrir að vinna að almannaheill. Leyfishafarnir hafa hins vegar tekið sér það vald að taka í notkun sífellt þróaðri tækni, án þess að fá til þess sérstök leyfi, enda hefðu slík leyfi ekki haft stoð í lögum. Með þessari hegðun hafa þeir fyrirgert sér því trausti sem þeim hefur verið sýnt.“

Fullyrða að fíkn eigi sér upptök í spilakössum

Í bréfinu, sem er langt og ítarlegt, segir að fáir á Íslandi hafi glímt við sjúkdóminn spilafíkn fyrir  lagasetninguna. Þá hafi heldur lítil sem engin þekking verið á fyrirbærinu spilafíkn, en eftir 1994 hafi tekið að fjölga í hópi þeirra sem glíma við spilafíkn. Fullyrt er í bréfinu að „nýliðunin á sér að mestu leyti upptök í spilakössunum.“

Einnig er bent á að ekkert eftirlit sé með starfsemi spilakassa á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert