Margt vitlausara en hjúkrunarheimili á Hótel Sögu

Framtíð Hótel Sögu er óráðin enn sem stendur.
Framtíð Hótel Sögu er óráðin enn sem stendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að það sé margt vitlausara en að gera Hótel Sögu að hjúkrunarheimili, líkt og Helgi Vilhjálmsson, eigandi sælgætisgerðarinnar Góu, lagði til í viðtali við Morgunblaðið í gær.

„Það gæti bara verið alveg „valid“ kostur í stöðunni, að bændur geti orðið gamlir á Hótel Sögu og dansað við Ragga Bjarna niðri á Mímisbar. Það væri margt vitlausara en það,“ segir Gunnar.

Gunnar sagði í samtali við mbl.is í kvöld að áhuginn á húsinu, sem er í eigu Bændasamtakanna, hafi aukist talsvert á síðustu vikum og að samtökin séu nú í viðræðum við sjö aðila um leigu á húsinu, bæði í heild sinni og hluta af því. Einn af þeim aðilum er í heilbrigðisgeiranum og segir Gunnar það geta orðið fróðlegt. Hinir aðilarnir eru að velta hótelrekstri fyrir sér.

„Ég skil alveg áhuga Helga á þessu því að mér skilst nú að biðlistinn í Reykjavík eftir hjúkrunarrými sé ansi langur og svo sem ekki mikil áform um að byggja,“ segir Gunnar. 

Hann segir að Bændasamtökin séu ekki með eina ákveðna hugmynd um hvaða starfsemi henti þeim best og skoða allar hugmyndir með opnum huga.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert