Saksóknari og lögregla hafa snúið vörn í sókn

Kynferðisbrot eru viðkvæmur málaflokkur þar sem rannsóknar- og málsmeðferðartími getur …
Kynferðisbrot eru viðkvæmur málaflokkur þar sem rannsóknar- og málsmeðferðartími getur skipt miklu máli. Tekist hefur að stytta þann tíma mikið bæði hjá héraðssaksóknara og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár. mbl.is/Hari

Málahalli hjá embætti héraðssaksóknara í byrjun árs 2016, þegar embættið var stofnað, nam um 170 málum og var meðal afgreiðslutími mála um 12-14 mánuðir. Stærstur hlut þessara mála kynferðisbrotamál. Síðan þá hefur tekist að vinna á mestum hluta málastabbans og er afgreiðslutími kynferðisbrota hjá embættinu nú um 3-4 mánuðir. Kynferðisbrotadeild embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðustu þremur til fjórum árum einnig lyft grettistaki og snúið vörn í sókn varðandi málastöðu innan deildarinnar.

Í síðustu viku féll dómur í Landsrétti vegna nauðgunar þar sem héraðsdómur var mildaður í skilorðsbundna refsingu eftir að málið hafði „dregist úr hömlu“ yfir fimm ára meðferð þess hjá réttarvörslukerfinu. Í dóminum er meðal annars bent á að eftir að rannsókn málsins lauk í september árið 2015 hafi liðið ár þangað til það barst til héraðssaksóknara. Var málið endursent til frekari rannsóknar áður en það var fellt niður og svo tekið upp að nýju með ákvörðun ríkissaksóknara áður en það fór fyrir dómstóla. Var sem fyrr segir sakfellt í málinu, bæði í héraði og í Landsrétti, en Landsréttur mildaði refsinguna vegna tafanna.

„Það var stífla hjá okkur og þeim á þessum tíma“

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í samtali við mbl.is að langur tímarammi málsins skýrist að miklu leyti af þeirri stöðu sem þessi málaflokkur var í á þessum tíma hjá bæði héraðssaksóknara og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísar hún til málahallans sem var hjá embættinu, auk þess sem málið hafi verið fellt niður og tekið upp aftur. „Það var stífla hjá okkur og þeim á þessum tíma,“ segir Kolbrún.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir mikið hafa breyst til batnaðar í …
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir mikið hafa breyst til batnaðar í afgreiðslu kynferðisbrotamála hjá bæði héraðssaksóknara og kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. mbl.is/Árni Sæberg

Spurð hvort svipaður málsmeðferðartími sé til staðar í dag segir hún að hjá héraðssaksóknara hafi tekist að stytta tímann mikið á síðustu árum. Segir hún að margt spili þar inn í. Stærsta atriðið hafi verið aðgerðaáætlun samráðshóps dómsmálaráðherra um meðferð kynferðisbrotamála, en það verkefni fékkst að fullu fjármagnað. Með auknu fjármagni var bætt við starfsfólki, en Kolbrún segir að deildin hafi auk þess tekið upp breytt verklag.

Sóttu í reynslubanka Útlendingastofnunar

Rifjar hún upp að árið 2016 hafi borist fréttir af góðum árangri hjá Útlendingastofnun, en þar tókst á tveimur árum að stytta biðtíma hælisleitenda úr 317 dögum niður í 87 daga, eða um 75%. Var það meðal annars gert með erlendri ráðgjöf og straumlínustjórnun. Kolbrún segir að sér hafi þótt þetta mjög áhugavert og tengt við stöðuna hjá eigin deild og því fengið forsvarsmenn frá Útlendingastofnun til að kynna þessa aðferðafræði með „crash course“. Í framhaldinu hafi þau sett sér það markmið að stytta málsmeðferðartímann í 3 mánuði og farið af stað. „Ég er samt enginn sérfræðingur í straumlínustjórnun,“ segir Kolbrún, en með góðum stuðningi yfirstjórnar og með því að fá samstarfsfólkið allt á sömu blaðsíðu og tilbúið í breytingar hafi þetta að mestu tekist.

Kolbrún segir að hennar tilfinning sé að svipað átak hafi átt sér stað hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar. „Mín tilfinning er að mál eru að koma miklu fyrr fullrannsökuð,“ segir Kolbrún og bætir við: „Við ættum ekki að vera að sjá svona dóma áfram“ og vísar þar til nauðgunardómsins hér að ofan.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tekur undir með Kolbrúnu að mikið hafi breyst með starfi samráðshópsins á sínum tíma og á síðustu árum hafi orðið algjör viðsnúningur í afgreiðslu mála hjá deildinni. Þannig hafi mikill fjöldi mála safnast upp árið 2017, en með breytingum hafi tekist að vinna á þeim stabba næstu tvö ár.

Ævar segir að erfitt sé að setja nákvæma tölu á hvernig rannsóknartími mála hafi breyst, enda sé rosalega mismunandi hversu flókin mál séu. Nefnir hann sem dæmi að meðan í einu máli séu aðeins gerandi og þolandi og málsatvik nokkuð ljós, þá geti annað mál haft tíu vitni sem þurfi að taka skýrslu af, málsatvik geti verið óljós, skoða þurfi samfélagsmiðla og jafnvel að gerandi sé farinn úr landi.

Eitt mál afgreitt fyrir hver fimm sem komu inn

Árið 2017 hafi hins vegar staðan verið þannig að fyrir hvert eitt mál sem deildin náði að afgreiða áfram, þá komu fimm mál inn. Augljóst er að slík gengur ekki til lengdar, en á þessum tíma var samráðshópur dómsmálaráðherra að skila af sér aðgerðaáætlun í málaflokknum fyrir árin 2018-2022. Sem fyrr segir fékkst áætlunin fullfjármögnuð og með því var hægt að bæta við sex starfsmönnum hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður kynferðisbrotadeildar. Fjölmargir kannast eflaust …
Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður kynferðisbrotadeildar. Fjölmargir kannast eflaust við hann sem yfirmann smitrakningarteymisins frá því í fyrstu bylgju faraldursins, en hann hélt til baka til kynferðisbrotadeildarinnar eftir tímabundið verkefni þar. Ljósmynd/Almannavarnir

Til samanburðar eru hjá deildinni í dag 15 stöðugildi að sögn Ævars, en 11 þeirra koma að rannsóknum kynferðisbrotamála. Hinir starfsmenn deildarinnar eru meðal annars tveir starfsmenn í Bjarkarhlíð sem taka viðtöl við þolendur ofbeldisbrota, sem oftast eru heimilisofbeldismál en ekki kynferðisbrotamál. Þá er einnig lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson skráður innan deildarinnar, þó starf hans sé aðallega að leita að börnum en ekki rannsókn kynferðisbrota.

Miklar breytingar gerðar hjá kynferðisbrotadeildinni

Ævar segir að samhliða fjölgun starfsmanna hjá deildinni hafi skipulagi deildarinnar verið breytt. Þau hafi tileinkað sér straumlínustjórnun og sett mál í fastari skorður. Þá hafi deildinni verið skipt í þrjú teymi. Eitt sem sérhæfir sig í brotum gegn börnum og fólki í viðkvæmri stöðu, annað sem sér um nauðganir og þriðja sem sér um önnur kynferðisbrot. Auk þess var innleitt mælaborð sem sýnir stöðu verkefna og aldur mála og rafræn rannsóknaráætlun sett upp í LÖKE-kerfi lögreglunnar. „Þetta stórbætir allt yfirsýn bæði rannsakenda og stjórnenda,“ segir Ævar.

Nú sé það einnig vinnuregla að hvert einasta mál sem komi inn til deildarinnar fari í gegnum greiningarfund stjórnenda og rannsakenda. Með því segir Ævar að hægt sé að forgangsraða málum eftir því hvort bjarga þurfi sönnunargögnum eða jafnvel að grípa þurfi strax til ráðstafana ef um mjög alvarleg brot er að ræða. Allar þessar aðgerðir eigi að koma í veg fyrir að rannsókn mála tefjist eða „falli milli skips og bryggju“ að sögn Ævars.

Með fjölgun starfsfólks hafi einnig verið hægt að auka sérhæfingu og var einn starfsmaður fenginn inn í stoðþjónustu sem meðal annars sér um skjalamerkingar, beiðnasendingar o.fl. sem var áður á höndum rannsóknarlögregluþjóna. Þá var einnig opnuð kærumóttaka kynferðisbrota, en með því er skjólstæðingum sem ætla að kæra kynferðisbrot beint beint til sérfræðings í kynferðisbrotamálum.

Mikill viðsnúningur á tveimur árum

Niðurstaðan af þessum aðgerður hefur verið mikill viðsnúningur, en Ævar segir að árið 2018 hafi tekist að halda málafjöldanum jöfnum, þ.e. jafn mörg mál voru afgreidd og komu inn á borð deildarinnar. Árið 2019 hafi svo tekist að snúa vörn í sókn og þá voru tvö mál afgreidd út á móti hverju máli sem kom inn. Segir hann að þar hafi að mestu tekist að vinna á málahalla fyrri ára, en fjöldi mála hafi jafnframt aukist talsvert frá 2017-2019. Í ár hefur faraldurinn svo sett talsvert strik í reikninginn, en Ævar segir að þrátt fyrir það hafi tekist að halda sjó varðandi afgreiðslu mála.

Fjöldi mála sem komu á borð kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. …
Fjöldi mála sem komu á borð kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tölur fyrir árið 2020 miðast við fyrstu 10 mánuði ársins. Graf/Lögreglan

Málafjöldinn í ár hefur reyndar verið um 25% minni, miðað við fyrstu 10 mánuði ársins, ef miðað er við síðasta ár. Ævar segir hins vegar að miðað við áskoranir, varðandi skýrslutökur á tímum faraldursins og annarra sóttvarnaaðgerða sem hafi hægt á öllu kerfinu, sé augljóst að afgreiðslutíminn sé áfram á góðum stað og geti aftur batnað þegar aðstæður batni með tilliti til faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert