Fjarlægði grínmyndband af Facebook

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir við Landspítalann, hefur fjarlægt myndband af facebooksíðu sinni. Um var að ræða grínmyndband sem einhverjir virðast hafa misskilið.

Á facebooksíðunni nefnir hann að í myndbandinu hafi hann ýjað að því hann sinnti því að para saman nemendur í skurðlæknisfræði á fjórða ári í læknadeild Háskóla Íslands. Þetta hafi verið grín frá upphafi til enda og eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Nemendur hafi verið með í ráðum.

„Atriðið rataði í fjölmiðla án minnar vitundar  og gæti hafa valdið misskilningi þegar það er tekið úr samhengi,“ skrifar hann og bætir við að hann hafi margoft tekið þátt í árshátíðarmyndböndum lækna- og hjúkrunarnema og slegið á létta strengi. Þau atriði hafi líka ratað í fjölmiðla.

„Nemendur hafa haft gaman af þessu en grín getur misskilist og valdið einhverjum sársauka  sem alls ekki var tilgangurinn. Í ofangreindu ljósi bið ég þá sem þetta kann að hafa sært afsökunar á því að hafa sett þetta efni inn á facebooksíðu mína,“ skrifar læknirinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert