Vakta þarf skriðuhættu betur vegna loftslagsvár

Guðmundur og föruneyti á Austurlandi.
Guðmundur og föruneyti á Austurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra heimsótti Seyðisfjörð í dag til að kynna sér aðstæður í kjölfar skriðufallanna í síðasta mánuði. Ásamt Guðmundi voru formaður og starfsmaður Ofanflóðanefndar, sérfræðingar frá snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði og Eflu verkfræðistofu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Föruneytið fór einnig til Eskifjarðar, Norðfjarðar og Eskifjarðar til að kynna sér varnir, en á Eskifirði var líka talin hætta á skriðuföllum í desember. Þá fundaði ráðherra með fulltrúum Múlaþings og Fjarðarbyggðar.

„Það er átakanlegt að sjá ummerki þeirra hamfara sem riðu yfir Seyðisfjörð í desember og heyra, frá fyrstu hendi, lýsingar Seyðfirðinga á þessum aðstæðum. Ég er þakklátur fyrir allt okkar færa fólk sem með samstilltum hætti vinnur nú hörðum höndum að því að bregðast við aðstæðunum með því að veita Seyðfirðingum nauðsynlega hjálp og stuðning, vinna að endurskoðuðu hættumati, vöktun og viðbragði til varnar byggðinni,“ er haft eftir Guðmundi Inga í tilkynningu.

Ljóst sé að atburðirnir á Austurlandi sýni að fylgjast þurfi betur með skriðuhættu víðar um land, meðal annars í ljósi hækkandi hitastigs og aukinnar úrkomuákefðar af völdum loftslagsbreytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert