Vel tekið í kröfur um rannsókn á Seyðisfirði

Jákvæðni er gagnvart þeirri hugmynd að rannsaka skriðuföll á Seyðisfirði.
Jákvæðni er gagnvart þeirri hugmynd að rannsaka skriðuföll á Seyðisfirði. Eggert Jóhannesson

Björn Oddsson, fagstjóri hjá almannavarnardeild lögreglu á von á því að jákvætt verði tekið í kröfur heimastjórnarinnar á Seyðisfirði um rannsókn á skriðuföllum á Seyðisfirði. Hins vegar sé ályktun Heimastjórnar um að mismunandi verkleg sé á ákvörðun um rýmingu eftir því hvort um sé að ræða snjóflóð eða aurskriður á misskilningi byggð.

Málið á rætur sínar að rekja til fundar Heimastjórnarinnar á Seyðisfirði í vikunni. Þar var farið hörðum orðum um framkvæmd rýmingar og að ekki hafi komið til þeirra fyrr en skriður voru teknar að falla í desember síðastliðnum. Krafist er rannsókna  á því hvers vegna svo var. Að auki var kallað eftir því að verklag yrði skoðað og þá sérstaklega með það fyrir sjónum að skýra ábyrgð þegar kemur að ákvörðunum um rýmingu.

Mikið hreinsunarstarf er unnið á Seyðisfirði.
Mikið hreinsunarstarf er unnið á Seyðisfirði. Ljósmynd/almannavarnir

„Mikið verk er nú óunnið til að skapa traust íbúa til rýminga,“ segir m.a. í fundargerð heimastjórnar um málið. 

„Sjálfsagt mál og kjörið að gera það“ 

Björn Oddsson segir að allir aðilar sem komu að skriðuföllum á Seyðisfirði séu að fara yfir ákvarðanir og tímalínur á málinu. Sú rýni sé langt komin og skýrari mynd sé að komast á málið í heild sinni.

Einnig er til Rannsóknarnefnd almannavarna sem er sjálfstæð nefnd sem starfar í umboði Alþingis. Hann segir að erindi Heimastjórnarinnar verði svarað formlega þegar búið er að taka við því en „almennt get ég sagt að menn líta jákvæðum augum á rannsókn á málinu. Hún þarf ekki að þýða neitt neikvætt. Hún er sjálfsagt mál og kjörið að gera hana,“ segir Björn.

Rannsóknarnefndin hefur farið yfir sambærileg mál og nú síðast rannsakað eftirmála óveðursins í desember árið 2019.  „Við munum svara erindi heimastjórnarinnar með bréfi þar sem fram kemur hvað er í býgerð í þessum efnum,“ segir Björn.

Ekki rétt að flækjustigi hafi verið um að kenna

Gagnrýni heimastjórnarinnar snýr einnig að flækjustigi í regluverki sem hafi tafið fyrir rýmingu. Er í ályktun hennar vísað til laga um varnir gegn snjóflóð og skriðuföll. Segir að samkvæmt núgildandi reglum liggi ákvörðun um rýmingu hjá Veðurstofu varðandi snjóflóðahættu en hjá almannavarnarnefnd varðandi aurskriðuhættu. „Þetta skapar hættulegt flækjustig sem sýndi sig ljóslega í þessum atburðum á Seyðisfirði,“ segir í bókun fundarins. 

Bendir Björn á að þarna sé vísað sé til 6.gr laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Í þeim er m.a. tilgreint að það sé á herðum Veðurstofu, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnarnefnd  sem gefa út viðvörun um staðbundna hættu á snjóflóðum. 

Björn Oddsson, fagstjóri hjá almannavarnardeild lögreglu.
Björn Oddsson, fagstjóri hjá almannavarnardeild lögreglu.

Hins vegar er tilgreint í 7. grein laganna að lögreglustjóri hafi að gengnu samráði við almannavarnarnefnd ákvörðunarvald um rýmingu þegar um ofanflóð er að ræða. 

Björn segir að ætlað flækjustig sé á misskilningi byggt. „Í raun er verklagið alveg það sama hvort um sé að ræða snjóflóð eða aurskriður. Veðurstofan vaktar og ef hún telur að grípa þurfi til aðgerða þá sendir hún formlegan tölvupóst á viðkomandi lögregluembætti. Almannavarnardeildin er með bakvakt og hlutverk hennar er að tryggja að skilaboðin komist til lögreglu sem framkvæmir alltaf rýminguna sama hvort um sé að ræða aurskriður eða snjóflóð. Lögreglan tilgreinir svo að til aðgerða hafi verið gripið. Að vísa til þess að flækjustig á þessum grunni hafi tafið rýmingu er því ekki rétt," segir Björn.

Í ofanálag bendir Björn á að lögregla hafi ávallt heimild um að rýma ákveðin svæði. „Það er því ekkert sem kallar á lagabreytingar þannig að rýming fari fyrr fram,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert