Varnargarður treystur á fyrsta degi engra smita

Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild er þakklátur yfirvöldum fyrir að …
Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild er þakklátur yfirvöldum fyrir að koma á skimunarskyldu við landamæri. Ljósmynd/Lögreglan

Yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum líkir nýju fyrirkomulagi við landamæri Íslands við það að nú hafi verið fyllt í skarð í varnargarði Íslendinga við kórónuveirunni. 

Nú er öllum sem koma til landsins skylt að fara í sýnatöku á flugvellinum og síðan um fimm daga sóttkví þar til kemur að sýnatöku númer tvö.

„Það er mjög þakkarvert að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara þessa leið,“ segir Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

„Ef við líkjum landamærunum í heimsfaraldri við varnargarð má segja að sprungan í honum hafi verið þessi valkostur um tveggja vikna sóttkví án skimunar. Með því að banna hana erum við búin að fylla í sprunguna á sama tíma og uppistöðulónið hinum megin er einmitt að fyllast,“ segir Sigurgeir.

Fullt uppistöðulón stendur í þessu samhengi fyrir þann ískyggilega vöxt sem faraldurinn er í í flestum nágrannalöndum, þar sem ný og hugsanlega meira smitandi afbrigði Covid-19 ríða húsum.

Fjöldi véla hefur lent á Keflavíkurflugvelli frá því breytingarnar tóku …
Fjöldi véla hefur lent á Keflavíkurflugvelli frá því breytingarnar tóku gildi á miðnætti í gær og segir Sigurgeir að engin vandræði hafi komið upp við að framfylgja nýjum reglum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sigurgeir segir að lögreglumenn og aðrir starfsmenn á flugvellinum hafi staðið í því frá því að sýnatökur hófust á flugvellinum í vor að reyna að fá þá, sem ekki vildu fara í sýnatöku, til þess að fara þó.

Í lok október lét Sigurgeir starfsfólk sitt byrja að halda utan um þann fjölda sem upprunalega vildi ekki fara í sýnatöku en var sannfærður um að gera það á svæðinu. Þessi hópur telur nú 210 manns, sem án fortölulistar flugvallarstarfsfólks hefði hugsanlega farið smitað inn í landið án þess að vita af því.

Ekkert smit

Ekkert kórónuveirusmit greindist á landinu síðasta sólarhring. Svo fá hafa þau ekki verið mánuðum saman. Sigurgeir segir skimunarskyldu á landamærum áhrifaríka ráðstöfun til þess að tryggja að þróunin verði áfram svo hagfelld innanlands.

„Við þekkjum hættuna. Það þarf ekki nema eitt par að koma inn í landið og smita frá sér,“ segir Sigurgeir. Hann bendir á að upptök þeirrar veiru sem Íslendingar eru enn að glíma við í dag séu ekki mikilfenglegri en þetta, að tveir hafi komið inn í landið, farið á svig við sóttkví og þar með hrundið faraldrinum af stað á ný.

Nú minnka líkurnar verulega á að fólk fari óafvitandi smitað inn í samfélagið, enda er sérhver farþegi skikkaður í skimun. Sú er gjaldfrjáls eins og hún hefur verið frá því í desember. Þegar gjaldið var fellt niður voru áhrifin strax nokkur að sögn Sigurgeirs, sem segir að þá strax hafi þeim fækkað mjög sem skirrðust við að láta skima sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert