Ég vildi ekki vera fræg!

Guðlaug Þorsteinsdóttir, skákkona og læknir, teflir enn sér til ánægju …
Guðlaug Þorsteinsdóttir, skákkona og læknir, teflir enn sér til ánægju og yndisauka. Eggert Jóhannesson

„Það þótti mjög merkilegt að komast í blöðin; kæmist maður í þau varð maður frægur á Íslandi – og mig langaði ekki að vera fræg. Ég hugsa að foreldrum mínum hafi þótt þetta miklu merkilegra en mér enda var enginn frægur í fjölskyldunni; foreldrar mínir voru venjulegt alþýðufólk, hann rennismiður og hún vann á skrifstofu hjá Lyfjaverslun ríkisins. Ömmum mínum og öfum fannst líka mjög merkilegt að ég var orðin fræg sem og æskuvinkonum mínum.“

Þetta segir Guðlaug Þorsteinsdóttir, skákkona og læknir, sem rifjar upp skákferil sinn í samtali við Sunnudagsblaðið um helgina af því tilefni að 49 ára gömul vatnslitamynd af henni að tefla við argentínska stórmeistarann Miguel Najdorf í Reykjavík sumarið 1972 er nú til sölu á uppboðsvefnum eBay fyrir tæpa 12 þúsund dollara, sem samsvarar ríflega einni og hálfri milljón króna. 

Vatnslitamálverk LeRoys Neimans af Guðlaugu og Miguel Najdorf að tefla …
Vatnslitamálverk LeRoys Neimans af Guðlaugu og Miguel Najdorf að tefla í Glæsibæ sumarið 1972. Neiman hefur vísast komið hingað til lands vegna einvígis Fischers og Spasskís.


Þekkti ekki mikið til skákheimsins

Mótið fór fram í Útgarði í Glæsibæ í júlílok 1972 en á sama tíma stóð „einvígi aldarinnar“ milli Bobby Fischers og Borisar Spasskís yfir í Laugardalshöllinni. Fjölda erlendra skákmanna dreif til landsins af því tilefni og mikið teflt um allan bæ. Guðlaug var yngsti keppandi mótsins, sem Skáksamband Íslands stóð að, aðeins ellefu ára, en Najdorf sá næstelsti, 62 ára, að því er kom fram í Morgunblaðinu á þessum tíma. Hann vann mótið, með fimm og hálfum vinningi af sex mögulegum. Aðeins Björn Þorsteinsson náði jafntefli. Það þýðir að Guðlaug hefur tapað skákinni á myndinni.

„Eins og ég segi, þá man ég ekki mikið eftir þessu móti, en augljóslega hef ég skrifað skákina niður og kannski er til afrit af skorblaðinu hjá Skáksambandi Íslands; eflaust ekki gert mér grein fyrir því að ég væri að tefla við svona frægan skákmann. Ég þekkti ekki mikið til skákheimsins þá,“ segir Guðlaug brosandi. „Myndin nær þó að fanga andrúmsloftið ágætlega en á þessum árum var ég oft að tefla við eldri menn, að mér fannst, sem reyktu án afláts. Það þurfti maður bara að þola.“

Hún hlær.

Guðlaug ung að árum við taflborðið.
Guðlaug ung að árum við taflborðið. Eggert Jóhannesson


Gæti orðið nýr Bobby Fischer

Allt snerist um Fischer og Spasskí þetta sumar en sjálf velgdi Guðlaug þeim merku köppum undir uggum þetta sumar. Þannig birtist í Þjóðviljanum risastór mynd af henni í ágústmánuði 1972 með fyrirsögninni: „Þrátt fyrir Fischer og Spasskí er þetta skákstjarnan í ár.“

Fleiri en Íslendingar voru upptendraðir yfir hæfileikum stúlkunnar. Júgóslavneska skákkonan Milunka Lazarevic komst þannig að orði í samtali við Morgunblaðið 19. júlí 1972: „Hún hefur þá stórkostlegustu hæfileika, sem ég hef fyrirhitt hjá svo ungri stúlku. Ég hef teflt við hana tvær skákir hingað til, og hún hefur sýnt að hún hefur allt sem þarf, ímyndurarafl, einbeitingu, allt. [...] Með ástundun og rækt gæti Guðlaug orðið meistari eftir nokkur ár. Mér finnst svo mikið til hennar koma að ég held að eftir um 10 ár gæti hún verið orðin nýr Bobby Fischer. Ég segi þetta ekki bara í gamni heldur líka í alvöru.“

„Já, hugsaðu þér,“ segir Guðlaug hlæjandi, þegar ég ber þetta undir hana. Hún gengst þó ekki við því að hafa verið undrabarn. „Ég hafði mikla skákhæfileika sem krakki en ég var ekki undrabarn. Ég átti auðvelt með að læra og var hugmyndarík en var ekki með þessa ólæknandi dellu sem þarf til að ná alla leið á toppinn. Fischer til dæmis vakti og svaf með taflið stöðugt hjá sér.“

LeRoy Neiman var þekktur listamaður í Bandaríkjunum á sinni tíð. …
LeRoy Neiman var þekktur listamaður í Bandaríkjunum á sinni tíð. Hann lést 2012. AFP


Stórir titlar að bera

Ekki var það til þess fallið að draga úr frægð Guðlaugar þegar hún gerði sér lítið fyrir og hélt jöfnu gegn tékkneska stórmeistaranum Vlastimil Hort í fjöltefli. „Mér fannst alltof mikið gert úr því og fannst ég ekki standa undir öllu þessu hóli. Hann var séntilmaður, bauð jafntefli í miðtaflinu og það var heilmikið eftir af skákinni. Undir niðri var ég viss um að ég hefði tapað ef við hefðum haldið áfram. Ég meina, fjölmiðlar kölluðu mig „skákstjörnuna“ og síðan „skákdrottninguna“. Það voru stórir titlar að bera,“ segir Guðlaug og gamlar úrklippur renna stoðum undir þetta geðslag en þar kemur gjarnan fram að hún sé hógvær og lítillát.

Guðlaug upplifði aldrei neitt nema hvatningu í skáksamfélaginu en viðurkennir að hún hafi verið svolítið untanveltu sem eina stelpan. „Þetta voru mest eldri strákar sem ég var að tefla við og almennt litið niður á konur á þessum tíma. Þær áttu ekki að kunna neitt fyrir sér í skák og þetta var strákasport. Þannig var tíðarandinn bara. Á móti kemur að ég hefði örugglega ekki fengið neina sérstaka athygli eða umfjöllun hefði ég verið strákur.“

Nánar er rætt við Guðlaugu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert