„Ekki hægt að bæta í nema það sé fjármagn“

Frá Öxnadalsheiði í gærkvöldi.
Frá Öxnadalsheiði í gærkvöldi. Skjáskot/Hannes Rúnarsson

Seint í gærkvöldi féllu snjóflóð í þrígang á veginn yfir Öxnadalsheiði. Í eitt skiptið fór flóð á bíl sem fjölskylda var í og á fjóra menn sem unnu að því að moka bílinn í gegnum 150 metra langan skafl. Eins og mbl.is fjallaði um í morgun gagnrýndi Hannes Rúnarsson atvinnubílstjóri aðgerðaleysi Vegagerðarinnar eftir að hann hringdi og lét vita af skaflinum. Var svarið á þann veg að snjóruðningstæki sem hafði verið uppi á heiðinni væri á leið niður og ekki yrði rutt á ný þar sem vetrarþjónustutímanum væri lokið þennan dag. Þá hafi Vegagerðin ekki heldur brugðist við ábendingum frá honum um að loka veginum vegna skaflsins og færðar.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að undanfarin ár hafi mikill halli safnast upp vegna vetrarþjónustu yfir snjóþunga og dýra vetur. Stundum hafi verið brugðist við slíkum hallarekstri með leiðréttingum í fjáraukalögum en því sé ekki að skipta núna. Því þurfi Vegagerðin að skipuleggja sig til að nýta fjármagnið sem best og í þessu tilfelli hafi vetrarþjónustutíminn verið liðinn.

Hann tekur þó fram að Vegagerðin bregðist við öllum ábendingum vegfarenda og skoðað verði hvort bregðast hefði átt öðruvísi við í þetta skiptið. Þá segir G. Pétur að starfsmaður Vegagerðarinnar hafi farið þarna yfir stuttu áður á snjóruðningstæki og þá hafi verið metið svo að það stefndi í þæfingsfærð alveg á næstunni, en ekki að skafl myndi loka fyrir umferð.

G. Pétur segir að miðað við veðurspá, mat starfsmanna og útsýni í vefmyndavélum hafi vaktstöðin horft til þess að fara að merkja veginn ófæran, en rétt er að taka fram að viðvaranir voru um slæmt færi á þessum tíma. „Það stefndi í að vegurinn yrði merktur ófær,“ segir G. Pétur. Eftir að lögreglunni var tilkynnt um snjóflóðið var veginum hins vegar lokað strax.

G. Pétur segir að snjómokstursreglur séu altaf í skoðun og séu aðlagaðar aðstæðum hverju sinni, en að mikil eftirspurn sé eftir að auka vetrarþjónustu alls staðar á landinu. Ekki sé hægt að verða við því án aukins fjármagns. „Það er ekki hægt að bæta í nema það sé fjármagn,“ segir hann. Þá segir G. Pétur að mögulega mætti koma þjónustutíma betur til skila þannig að fólk geti hagað ferðum sínum samkvæmt því.

Spurður út í stöðuna með hallareksturinn miðað við útgjöld í ár segir G. Pétur að hingað til hafi veturinn ekki verið mjög slæmur, en nokkrir vetur þar á undan hafi verið erfiðir. Segir hann að að óbreyttu stefni í að hægt sé að vinna á hallarekstrinum, en slíkt sé þó háð því að ekki komi erfiðari kaflar síðar í vetur. Þá segir hann að stór kostnaðarliður sé sólarhringsþjónusta á fjölmennustu svæðum landsins, svo sem suðvesturhorninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert