Íslendingar eyða meira og líður verr

Íslendingar hafa aldrei eytt meira á dag í kringum jólahátíðina …
Íslendingar hafa aldrei eytt meira á dag í kringum jólahátíðina en síðustu jól. mbl.is/​Hari

Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup eyddu landsmenn að meðaltali rúmlega 10 þúsund krónum á dag í kringum nýafstaðin jól, nánar tiltekið daga 21. til 27. desember. Íslendingar hafa aldrei eytt jafnmiklu í aðdraganda jóla en þeir eyddu rétt rúmlega 9 þúsund krónum á dag á núvirði, milli jóla og nýárs árið 2012, sem var gamla metið.

Í apríl síðastliðnum töldu nær fjórir af hverjum tíu að heildartekjur heimilisins myndu lækka á næstu sex mánuðum, en það hlutfall hafði ekki tekið jafnmikið stökk síðan í nóvember árið 2008 í kjölfar bankahrunsins. Í desember í fyrra hafði þetta hlutfall þó lækkað aftur og töldu þá aðeins um 12% landsmanna að tekjur heimilisins myndu lækka á næstu mánuðum. Þá voru þeir sem töldu að tekjur heimilisins myndu hækka á næstu mánuðum orðnir fleiri en þeir sem töldu að þær myndu lækka.

Þá mældist andleg líðan einnig slæm á fyrri hluta seinasta árs þegar kórónuveirufaraldurinn herjaði fyrst á landsmenn. Það hefur þó ekki batnað og mælist andleg líðan landsmanna enn hlutfallslega slæm. Þó virðist meirihluti landsmanna meta líf sitt nokkuð gott. Samkvæmt svokölluðum lífsánægjustiga Cantril, sem Gallup notast við, falla tæplega 60% landsmanna undir flokk þeirra sem „dafna,“ um 37% teljast vera „í þrengingum“ og 4% „í basli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert