Hraun féll á gönguleiðina að Bláa lóninu

Hraun féll á bílastæði við Bláa lónið og á gönguleiðina í átt að lóninu þegar jarðskjálftarnir gengu yfir í morgun. Gönguleiðinni var lokað eftir seinni skjálftann.

Dolores Rós Valencia, þjónustustjóri á Retreat-hóteli Bláa lónsins, segir að sem betur fer hafi enginn verið á ferli á svæðinu og hún veit ekki til þess að fólk hafi meiðst.

Starfsmönnum var gert að yfirgefa húsnæði Bláa lónsins vegna skjálftanna og þegar mbl.is ræddi við Dolores var hún komin til Reykjavíkur. „Það nötraði allt í góðar 40 mínútur, þangað til við vorum beðin um að rýma svæðið,“ segir hún og bætir við: „Þetta var mjög sérkennilegt. Það var eins og jörðin væri á hreyfingu og þetta bara hætti ekki.“

Starfsmennirnir söfnuðust saman á bílastæðinu og byrjuðu að huga að bílunum sínum því bílastæðið er niðurgrafið og umkringt hrauni. Engir bílar skemmdust. 

Retreat-hótel Bláa lónsins.
Retreat-hótel Bláa lónsins. Ljósmynd/Blue Lagoon Iceland

„Óhugnanlegasta sem ég hef upplifað“

Hún hefur búið í Grindavík í sjö ár og hefur áður verið að störfum í Bláa lóninu þegar skjálftahrinur hafa gengið þar yfir. „Þetta er það óhugnanlegasta sem ég hef upplifað.“

Byggingin hristist mikið við skjálftana og stórar rúður sem þar eru hættu hreinlega ekki að hreyfast. „Maður beið eftir því að ein rúða myndi fara en á meðan við vorum þarna gerðist það ekki,“ lýsir hún.

Anddyri Retreat-hótelsins.
Anddyri Retreat-hótelsins. Ljósmynd/Blue Lagoon Iceland

Starfsfólk Retreat kom saman í lobbíinu þegar skjálftarnir gengu yfir og var geðshræringin lítil sem engin, enda hópurinn öllu vanur að sögn Dolores. „Við vorum að bíða eftir því að þetta myndi klárast, þannig að allir færu aftur í sínar einingar,“ segir hún en eftir að skjálftarnir hættu ekki ákvað öryggisdeildin að húsið skyldi rýmt. Nýbúið var að fara yfir öryggisætlun lónsins vegna eldgosa og jarðskjálfta og farið var eftir henni.

Engir gestir voru á hótelinu enda hefur það einungis verið opið um helgar. Óvíst er hvað verður um næstu helgi, sem átti að vera þriðja opnunarhelgin eftir að Covid setti allt úr skorðum.

Vínkjallari veitingastaðarins Moss er höggvinn inn í ævafornt hraunið og …
Vínkjallari veitingastaðarins Moss er höggvinn inn í ævafornt hraunið og má þar finna vín frá flestum hornum heimsins. Ljósmynd/Blue Lagoon Iceland

Starfsmaður var í vínkjallaranum

Starfsmaður var staddur í vínkjallara veitingastaðarins Moss í Bláa lóninu þegar fyrsti jarðskjálftinn reið yfir. Lyfta er í kjallaranum ásamt stiga, sem er ætlaður fyrir starfsmenn í rýmingaráætlun, og notaði starfsmaðurinn hann til að komast út.

„Það hefði getað farið verr en það gerði það ekki,“ segir Dolores. Kjallarinn er staðsettur ofan í hrauni og að hennar sögn brotnuðu þar einhverjar vínflöskur.

Bókasafn Retreat hótelsins.
Bókasafn Retreat hótelsins. Ljósmynd/Blue Lagoon Iceland

Einhver listaverk skemmdust á Retreat, sem er fimm stjörnu hótel, en hún veit ekki um stöðuna á Silica, sem er fjögurra stjörnu hótel. Hún segir að veitingadeildin hafi misst mikið af þurrlager. „Það var að koma hádegismatur og kokkarnir þurftu að skilja allt eftir. Öryggisdeildin slökkti á eldavélunum,“ segir Dolores og bætir við að allt hafi verið á rú og stú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert