Hrósaði Veðurstofunni og missti af tölvupósti

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hrósaði Veðurstofu Íslands undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.

„Ég vil byrja á að hrósa Veðurstofu Íslands fyrir að halda vefnum sínum gangandi fyrir fólk sem vill nálgast upplýsingar um skjálfta dagsins. Þó að það hafi ekki gengið hnökralaust eru það tilfinnanlegar framfarir,“ sagði Björn Leví og átti þar við jarðskjálftana á Reykjanesskaga í morgun.

Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is í dag að koma þurfi í veg fyrir að vefurinn liggi aftur niðri eins og hann gerði í nokkrar mínútur í morgun eftir stærsta jarðskjálftann.

Missti af tölvupósti

Í ræðu sinni minntist Björn Leví einnig á að skipulagsleysi hafi einkennt þetta kjörtímabil. „Skipulagsleysi eins og hefur einkennt kófið og handahófskenndar aðgerðir stjórnvalda sem skila sér seint og illa til þeirra sem á þurfa að halda,“ sagði hann og bætti við að allt sé unnið á síðustu stundu. Þess vegna hafi hann misst af tölvupósti um vaktir á forsetastól Alþingis en Björn situr í forsætisnefnd.

„Að lokum biðst ég afsökunar á að hafa misst af téðum tölvupósti en það gerist í önnum vikunnar og störfum þingsins þegar allt er gert á síðustu stundu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert