16.600 atvinnulausir í janúar

Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 69,5% og hlutfall atvinnulausra …
Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 69,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 8,6%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi atvinnulausra í janúar 2021 var 16.600 manns samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem jafngildir 8,2% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 76,7% og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi 71,5%.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Samanburður við desember 2020 sýnir að árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka dróst saman um 1,4 prósentustig á milli mánaða og árstíðarleiðrétt atvinnuleysi jókst um 0,8 prósentustig. Síðustu 6 mánuði hefur leitni árstíðarleiðréttingar á hlutfalli starfandi fólks lækkað um 1,0 prósentustig og leitni atvinnuleysis hækkað um 1,0 prósentustig.

Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar er áætlað að 199.400 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í janúar 2021 sem jafngildir 76,0% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 182.300 hafi verið starfandi og 17.100 án atvinnu og í atvinnuleit.

Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 69,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 8,6%. Áætlað er að 62.800 einstaklingar hafi verið utan vinnumarkaðar í janúar 2021 eða 23,9% af mannfjölda. Samanburður við janúar 2020 sýnir að hlutfall starfandi hefur dregist saman um 5,6 prósentustig á milli ára og atvinnuleysi aukist um 4,4 prósentustig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert