Aukið álag í starfi vegna Covid-19

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Nær tveir af hverjum þremur starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga upplifa aukið álag eftir að heimsfaraldur kórónaveirunnar skall á landinu af fullum þunga. Þetta sýnir könnun sem rannsóknarfyrirtækið Maskína gerði fyrir BSRB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Alls sögðu tæplega 64 prósent opinberra starfsmanna að álag í starfi hafi aukist nokkuð eða mjög mikið vegna faraldursins í byrjun árs 2021. Þetta er talsverð aukning frá því í samskonar könnun sem gerð var í apríl 2020 þegar rúmur helmingur opinberra starfsmanna, um 53 prósent, upplifðu aukið álag í starfi vegna faraldursins. Nú segja um 11 prósent opinberra starfsmanna að álag í starfi hafi minnkað nokkuð eða mikið, samanborið við rúmlega 21 prósent í apríl í fyrra.

Álag hefur einnig aukist á almennum vinnumarkaði. Þar segjast tæplega 47 prósent upplifa aukið álag í byrjun árs samanborið við 36 prósent í apríl í fyrra. Tæplega 15 prósent upplifa nokkuð eða mikið minna álag, en um 31 prósent voru í þeirri stöðu í apríl 2020.

Þegar staðan í janúar síðastliðnum er skoðuð án tillits til þess hvort viðkomandi starfar á almenna vinnumarkaðinum eða þeim opinbera segjast tæplega 55 prósent að álagið hafi aukist, rúm 32 prósent segja álagið hafa staðið í stað og um 13 prósent segja það hafa minnkað. Í apríl 2020 sögðu um 41 prósent að álagið hafi aukist, um 33 prósent að það hafi staðið í stað og 26 prósent að dregið hafi úr álagi.

„Þrátt fyrir aukið álag í starfi vegna heimsfaraldursins hefur hann einnig leitt til þess að gæðastundum með fjölskyldunni hefur fjölgað hjá stórum hluta þjóðarinnar. Alls sögðust rúmlega 59 prósent þátttakenda í könnuninni að gæðastundum hafi fjölgað nokkuð eða mikið en tæp 15 prósent sögðu að gæðastundum hafi fækkað nokkuð eða mikið.

Gæðastundunum virðist hafa fjölgað eftir því sem leið á faraldurinn því í apríl 2020 sögðu um 50 prósent að gæðastundunum hafi fjölgað en 25 prósent að þeim hafi fækkað nokkuð eða mikið.

Lítill munur var á svörum eftir því hvort fólk starfaði hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Almennt virðist þó gæðastundunum hafa fjölgað heldur meira hjá þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert