Meðferð kvörtunarmáls lokið af hálfu landlæknis

Alma Möller og Páll Matthíasson á upplýsingafundi almannavarna.
Alma Möller og Páll Matthíasson á upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Meðferð kvörtunarmáls, sem hefur verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga og tengist lækni sem starfaði áður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hefur að undanförnu verið í endurmenntun og -þjálfun hjá Landspítala, er lokið af hálfu embættis landlæknis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölmu D. Möller landlækni og Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans.

„Fram hefur komið að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur tilkynnt atvik til lögreglu lögum samkvæmt og er það til meðferðar þar. Landspítali mun fylgjast með framvindu þess og bregðast við eftir því sem við á,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að hvorki embætti landlæknis né Landspítali megi án lagaheimildar fjalla opinberlega um málefni einstaklinga eða starfsfólks.

„Mörg fordæmi eru fyrir því að heilbrigðisstofnanir taki heilbrigðisstarfsfólk til endurmenntunar ef bæta þarf faglega þekkingu og þjálfun. Skipulag endurmenntunar af þessu tagi er ætíð í föstum skorðum. Þegar um er að ræða lækna sem ekki hafa lengur lækningaleyfi, þá starfar það fólk aldrei sem læknar heldur sem aðstoðarfólk á ábyrgð fagaðila. Þjálfunarferlið er virkt og er frammistaða metin reglulega,“ segir í tilkynningunni.

„Almennt gildir að þegar vel tekst til getur einstaklingur lagt inn umsókn um endurveitingu leyfis og sem embætti landlæknis tekur þá til meðferðar þar sem metið er hvort ástæður sem leiddu til þess að viðkomandi er ekki lengur með leyfi, eigi ekki lengur við.“

Fram kemur að hagsmunir, þarfir og öryggi sjúklinga séu leiðarljós í allri íslenskri heilbrigðisþjónustu.

„Lög um réttindi sjúklinga segja að sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita, miðað við ástand þeirra og horfur á hverjum tíma. Endurmenntun heilbrigðisstarfsfólks miðast meðal annars við að mæta þessum lagaákvæðum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert