Örverugildi innan marka við heimaslátrun

Vonir standa til um að hægt verði að auka verðmætasköpun …
Vonir standa til um að hægt verði að auka verðmætasköpun við slátrun sauðfjár með heimaslátrun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn af þeim bæjum, sem þátt tóku í tilraunaverkefni um heimaslátrun á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, var með óásættanlegt gildi á heildarfjölda gerla né iðragerla við mælingar. Á langflestum bæjum voru sýrustigsmælingar á skrokki 24 klukkustundum eftir slátrun einnig innan marka. Alls tóku 25 bæir þátt í verkefninu. Á fimmtán bæjum mældust ekki iðragerlar úr stroksýnum.

Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu um tilraunaverkefnið um heimaslátrun: aukin verðmætasköpun við slátrun sauðfjár á Íslandi.

Tilraunir með rafrænt eftirlit

Verkefnið var sett af stað af ráðherra sumarið 2020 með það að markmiði að leita leiða til þess að auðvelda bændum að slátra sauðfé heima til markaðssetningar þannig að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt sé að dýravelferð og dýraheilbrigði.

Sem fyrr segir tóku 25 bæir þátt í verkefninu. Fram kemur í skýrslunni að vel hafi gegnið að finna þátttakendur og samskipti við þá gengið vel. 

Hópi bæja var síðan skipt í tvennt; í öðrum hópnum fór eftirlit dýralæknis fram á staðnum og í hinum fór það fram í gegnum fjarfundabúnað. Samtals voru 112 lömbum slátrað í verkefninu. 

Gæðaþættir sem mældir voru eru sýrustig í vöðva 24 klukkustundum eftir slátrun og örveruvöxtur í afurð. Þátttakendur mældu sýrustig sjálfir og tóku sýni fyrir örverumælingar og sendu á tilraunastofu.

Í skýrslunni um verkefnið segir að erfiðlega hafi gengið af framkvæma rafrænt eftirlit dýralæknis. Netasamband á bæjum var misgott sem og myndgæði. Ekki náðist að ljúka heilbrigðisskoðun á fullnægjandi hátt með rafrænni heilbrigðisskoðun á neinum af þeim 14 bæjum sem tóku þátt í heilbrigðisskoðun á rafrænan hátt. Ekki var gerð krafa á ákveðin búnað í sambandi við upptöku eða móttöku myndefnis.

„Helstu ástæður voru að ekki náðist í gegnum fjarbúnað að fullvissa sig um að fullnægjandi skoðun á eitlum hefði náðst en einnig var erfitt að meta hvort hreinlæti við meðferð afurða hefði verið gætt þar sem myndskeið og myndir voru ekki af þeim gæðum að hægt væri að meta t.d. hár á skrokk,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert