Rúmlega 4.600 skjálftar

Jarðvísindamennirnir Sara Barsotti og Melissa A. Pfeffen frá Veðurstofu Íslands …
Jarðvísindamennirnir Sara Barsotti og Melissa A. Pfeffen frá Veðurstofu Íslands mældu hitastig jarðar og brennisteinsútblástur á hverasvæðinu Seltúni við Krýsuvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúmlega 4.600 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því hrinan hófst 24. febrúar. Enginn skjálfti mældist yfir 3 stig í nótt en um sex í morgun varð skjálfti af stærð 2,9.

Í fyrradag mældust tveir jarðskjálftar yfir 5 að stærð. Sá stærri varð kl. 10:05 af stærð 5,7 og annar kl. 10:30 af stærð 5. Síðar þann sama dag, klukkan 12:37, varð svo skjálfti af stærð 4,8. Ellefu jarðskjálftar yfir 4 að stærð hafa mælst og fjöldi skjálfta yfir 3. Þeir hafa fundist víða á Suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. 

Í gærdag kl. 14:35 varð skjálfti af stærð 3,5 rétt fyrir norðan Fagradalsfjall en kl. 14:21 varð annar skjálfti á sömu slóðum af stærð 3,2 Fundust þeir á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Hrinan er enn í gangi að sögn Einars Hjörleifssonar, nátt­úru­vár­sér­fræðing­s á Veður­stofu Íslands en hægt hefur á virkninni í nótt. Fremur margir litlir skjálftar en engir stórir að sögn Einars.

Það er óvissa áfram um hvort jarðskjálftahrinan geti fært sig yfir á svæðið austan við Kleifarvatn þannig að það er áfram hættustig í gangi.

Austan við Kleifarvatn eru Brennisteinsfjöll og Hengilssvæðið þar sem sterkir jarðskjálftar hafa átt upptök í aldanna rás. Reykjanesskagi er þekkt jarðskjálftasvæði og mældist þar veruleg virkni á árunum 1927-1955 og eins 1967-1977 svo litið sé til síðustu aldar. Jarðskjálfti af stærð 6,3 stig varð við Brennisteinsfjöll árið 1929 og annar af stærð 6,0 varð á þeim slóðum árið 1968. Það eru sterkustu jarðskjálftar sem mælst hafa í grennd við höfuðborgarsvæðið. Jarðskjálftar af þeirri stærð geta valdið tjóni.

Einar segir að í dag verði farið yfir gögn úr gervihnöttum og þá skýrist kannski betur hver tilfærslan hefur verið við skjálftana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert