Að ýmsu að huga fyrir leik

Þeir sem ætla að nýta tækifærið og fara á leiki í handbolta eða körfubolta um helgina ættu að kynna sér málið áður en farið er af stað. Skrá þarf alla áhorfendur og misjafnt er hversu margir rúmast í íþróttahúsum félaganna, ekki geta allir tekið við 200 áhorfendum.

Magnús Kári Jónsson hefur séð um Covid-tengd mál fyrir Handknattleikssamband Íslands sem hann segir að hafi unnið náið með Körfuknattleikssambandinu. Hann segir fyrirkomulaginu svipa til þess þegar leikið hafi verið fyrir framan áhorfendur í haust en þó hafi einn þáttur bæst við sem flæki málið talsvert. Þar á hann við skráningarskyldu áhorfenda en einfaldast er fyrir fólk að kaupa sér miða á netinu áður en haldið er á leiki til að skrá sig rafrænt. Misjafnt er eftir liðum hvernig rafræn miðasala fer fram og því best að gera það tímanlega.

Hver áhorfandi þarf að hafa minnst tvo fermetra út af fyrir sig samkvæmt núverandi reglum og afar misjafnt er hversu marga áhorfendur íþróttahús liðanna rúma. Auðveldlega gæti orðið fljótt uppselt á leiki liða með minnstu húsin sem rúma rétt rúmlega 50 manns samkvæmt reglugerðinni, það er því um að gera fyrir fólk að kynna sér málin hjá félögunum áður en haldið er á völlinn til að styðja sitt fólk.

Í myndskeiðinu er rætt við Magnús Kára sem hefur haft í nægu að snúast að undanförnu.

Hægt er að kynna sér leiðbeiningar HSÍ og KKÍ vegna Covid-19 hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert