Engin skýr merki um kvikuhreyfingar

Vísindamaður frá Veðurstofu Íslands við rannsóknir á Reykjanesi.
Vísindamaður frá Veðurstofu Íslands við rannsóknir á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vöktun á Reykjanesskaga sýnir engin skýr merki um kvikuhreyfingar í grynnsta hluta skorpunnar, efstu 5-6 km, en ekki er hægt að útiloka slíkt þar sem hreyfingar sem tengjast skjálftavirkni geta hulið ummerkin.

Þetta segir í færslu frá Þorvaldi Þórðarsyni eldfjallafræðingi á síðu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskólans.

Þorvaldur segir því að litlar líkur séu á að skjálftar liðinna daga séu beinn undirbúningur fyrir eldgos en ekki sé þó hægt að útiloka neitt. „Það er öruggt að einhvern daginn verður eldgos á skaganum enda er hann byggður upp af ungu gosbergi,“ segir Þorvaldur. Reykjanesskagi hafi myndast á síðustu 12.000 árum. Ekki hefur gosið þar í 800 ár.

Í færslunni rekur Þorvaldur einnig stærð og lögun þeirra gosa sem vitað er um. Stærstu þekktu sprungugosin á Reykjanesskaga hafa verið á bilinu 0,7-1 km^3 (þ.e. 700-1.000 milljarðar lítra) og þakið um 60 ferkílómetra lands. Það er álíka stórt landsvæði og Garðabær.

Stærstu hraunskildir eru á bilinu 5-10 km^3 og hraun frá þeim hefur flætt allt að 30 kílómetra frá upptökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert