Andlát: Jósef Ólafsson

Jósef Friðrik Ólafsson.
Jósef Friðrik Ólafsson.

Jósef Friðrik Ólafsson, fyrrverandi yfirlæknir St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, lést á hjúkrunarheimilinu Boðaþingi í Kópavogi þann 15. febrúar, 91 árs að aldri.

Jósef fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1929, sonur hjónanna Sigurlaugar Einarsdóttur og Ólafs Hermanns Einarssonar. Jósef var næstelstur sex systkina.

Eftir að Jósef lauk stúdentsprófi frá MR árið 1950 nam hann læknisfræði við Háskóla Íslands, hann lauk embættisprófi vorið 1957. Að loknu kandidatsári og héraðsskyldum hér heima lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hann aflaði sér sérmenntunar í lyflæknisfræði. Hann starfaði á nokkrum sjúkrahúsum í Svíþjóð, þar til hann hélt heim til starfa sem yfirlæknir lyflækningadeildar við St. Jósefsspítala í Hafnarfirði vorið 1963. Tvö elstu börn Jósefs og Sólveigar fæddust í Svíþjóð en þriðja barnið fæddist eftir heimkomuna til Íslands haustið 1964. Jósef vann allan sinn starfsferil við St. Jósefsspítala og var auk þess með læknastofu, fyrir utan hlé árið 1971 þegar hann tók að sér afleysingastöðu héraðslæknis í Ólafsfirði. Jósef gegndi stöðu yfirlæknis Jósefsspítala frá 1993 til 1996 og starfaði sem læknir til ársins 2000 þegar hann lét af störfum sökum aldurs.

Jósef kvæntist Sólveigu (Ollý) Ásgeirsdóttur húsmæðrakennara (f. 27.06. 1933, d. 03.04. 2015) þann 3. september 1955. Börn Jósefs og Sólveigar eru: Sólveig Birna, Ólafur Mar og Snorri. Fyrir átti Sólveig Áslaugu sem var ættleidd af foreldrum Sólveigar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert