Þjófur kýldi öryggisvörð sem reyndi að stöðva hann

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn grunaður um þjófnað og líkamsárás í verslun í miðborginni á tíunda tímanum í gærkvöldi. Maðurinn mun hafa kýlt öryggisvörð í andlitið þegar hann var stöðvaður á leið úr versluninni með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Skömmu fyrir miðnætti hafði lögreglan afskipti af öðrum manni en hann er  grunaður um að hafa tekið tösku af konu og hlaupið með töskuna á brott. Maðurinn sagðist hafa kastað töskunni frá sér og fundust þar skilríki úr töskunni en taskan og aðrir munir hafa ekki fundist.

Síðdegis var tilkynnt til lögreglu um búðarhnupl í Breiðholtinu (hverfi 109). Lögreglan hafði afskipti af manni sem er grunaður um þjófnað í versluninni og var vettvangsskýrsla rituð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert