Þrír yfir þremur á þrettán mínútum

Þrír skjálftar, allir yfir 3,5 að stærð, riðu yfir um …
Þrír skjálftar, allir yfir 3,5 að stærð, riðu yfir um þrjúleytið í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jörð skalf mjög um þrjúleytið í nótt, en þá urðu þrír jarðskjálftar á 13 mínútna kafla sem allir náðu yfir 3,5 að stærð samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofunnar.

Skjálftanna varð allra vel vart á höfuðborgarsvæðinu. Sá fyrsti reið yfir klukkan 02:52 í nótt, og er sá skráður 3,5 á vef Veðurstofu Íslands. Varð hann um 1,2 km suðsuðvestan af Keili.

Sá næsti kom rétt rúmlega hálfri mínútu síðar, og var nokkru stærri. Reyndist hann vera um 4,3 að stærð og varð hann tæpum kílómetra vestan við Keili.

Um 12 mínútum síðar kom svo lokahnykkurinn í þessari jarðskjálftaþrennu, þegar skjálfti af stærðinni 4,6 varð klukkan 3:05. Átti hann upptök sín um 2,2 kílómetra norðaustur af Fagradalsfjalli, sem er á svipuðum slóðum og fyrri skjálftarnir tveir.

Á sjöunda tug minni skjálfta mældust á þriðja tímanum í nótt og voru þeir allir undir þremur að stærð.

Skjálftanna sem mældust yfir 4 varð vel vart á suðvesturhorninu og þess seinni, sem var 4,6, alveg austur á Hellu og í Vestmannaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert