Orð gegn orði

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Maður sem var ákærður fyrir að hafa beitt barnsmóður sína og fyrrverandi sambýliskonu ofbeldi var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur nýverið. Maðurinn neitaði sök og voru lýsingar hans og konunnar á atvikinu gjörólíkar. Enginn vitni voru til staðar og að sögn læknis gat konan hafa hlotið áverkana með þeim hætti sem hún lýsti en einnig samkvæmt lýsingu mannsins. 

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa veist með ofbeldi að konunni, ítrekað skellt herbergishurð á hægri handlegg og öxl hennar þannig að hún klemmdist á milli stafs og hurðar og í framhaldinu tekið hana hálstaki, dregið hana þannig í gegnum húsið að útidyrahurðinni og hent henni út fyrir svo hún féll á stéttina.

Hann hefur lýst því að hann hafi ekki viljað hleypa konunni inn í herbergið sitt. Hún hafi reynt að komast inn og í því skyni hamast á hurðinni, teygt handlegg inn og reynt að losa stól sem hefði verið skorðaður fyrir hurðinni. Hann hefði ýtt henni í burtu en ekki beitt hana neinu því ofbeldi sem honum væri gefið að sök. Engin vitni voru að framangreindum atvikum heldur stendur þar orð gegn orði segir í niðurstöðu dómsins. 

Faðir og bróðir mannsins voru í húsinu en þeir urðu ekki varir við átökin fyrr en þeim var í raun lokið og konan komin út úr húsinu. Hún leitaði til vinkonu sinnar eftir atvikið en framburður hennar takmarkast af því sem brotaþoli greindi henni frá. Þá liggja fyrir gögn um andlega vanlíðan konunnar eftir atvikið en hún leitaði á slysadeild eftir atvikið. Af vottorði og myndum sem konan lagði fram sést að hún var með nokkra yfirborðsáverka víðs vegar um líkamann.

Læknirinn sem gaf út vottorðið staðfesti það fyrir dóminum og kvað áverkana vera þess eðlis að þeir gætu samræmst lýsingu hennar á atvikum. Hins vegar gætu þeir einnig samræmst lýsingu mannsins á því sem gerðist.

„Framburður brotaþola er trúverðugur og hefur ekkert komið fram sem rýrir hann. Ákærði hefur hins vegar eindregið hafnað því að hafa ráðist að brotaþola með þeim hætti sem honum er gefið að sök og hefur framburður hans verið stöðugur,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

Til þess að unnt sé að leggja trúverðugan framburð konunnar til grundvallar niðurstöðu málsins verður hann að hafa þá stoð í skýrslum annarra vitna eða öðrum sönnunargögnum að nægi til sakfellis að virtum sönnunarkröfum í sakamálum, segir dómari í niðurstöðu sinni.

„Endursögn vinkonu brotaþola og gögn um andlega líðan hennar eru ekki nægjanleg til þess að ráða úrslitum um sakfellingu ein og sér. Læknisfræðileg gögn styðja það ekki með beinum hætti að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás á hendur brotaþola þótt þau staðfesti að eitthvað hafi gengið á. Af öllu framangreindu verður ekki talið að framburður brotaþola fái þá stoð í gögnum eða framburði vitna að nægi, gegn eindreginni og staðfastri neitun ákærða, til þess að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir,“ segir í dómsniðurstöðu.

Samkvæmt því leikur slíkur vafi á því að ákærði hafi gerst sekur um þann verknað sem lýst er í ákæru að ekki verður talið að komin sé fram lögfull sönnun þess og verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert