Setja upp gasmæli norðan við Keili

Verið er að koma upp nýjum gasmæli norðan við Keili.
Verið er að koma upp nýjum gasmæli norðan við Keili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið er að setja upp gasmæli norðan við Keili til þess að auka enn frekar eftirlit með jarðskjálftasvæðinu á Reykjanesi. Fáir skjálftar sem hafa verið þrír að stærð eða stærri hafa mælst við Fagradalsfjall frá því skjálfti sem mældist 4,5 reið yfir skömmu fyrir klukkan 9 í morgun samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.

Stöðug jarðskjálftavirkni er samt sem áður á svæðinu en órói hefur ekki byrjað aftur eftir  skjálftann í morgun. Jarðskjálftarnir eru allir á svipuðum slóðum, í og við Fagradalsfjall samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. 

Kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga 24. febrúar með skjálfta af stærð 5,7 og öðrum sem var 5 að stærð. Síðan þá hafa fjölmargir skjálftar yfir 4 mælst á svæðinu og tveir skjálftar yfir 5. Þeir voru 27. febrúar (M5,2) og 1. mars (M5,1). 

Í nótt klukkan 00:59 varð jarðskjálfti 4,1 að stærð 1,4 km SA af Fagradalsfjalli. Órói og skjálftavirkni minnkaði eitthvað í nótt en jókst aftur snemma í morgun. Jarðskjálfti af stærð 4,5 mældist síðan klukkan 08:54 við Fagradalsfjall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert