100 milljónir fyrir síðasta hluta Viðeyjar

Verðmiðinn á 4,5 hektara landinu er 100 milljónir samkvæmt samkomulagi …
Verðmiðinn á 4,5 hektara landinu er 100 milljónir samkvæmt samkomulagi borgarinnar og fjölskyldunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Borgarráð samþykkti í gær að ganga til samninga við eiganda á um 4,5 hektara landi í Viðey  fyrir 100 milljónir króna. Með kaupunum mun Reykjavíkurborg eignast eyjuna að fullu. Verðmat fjögurra fasteignasala var allt frá 25 milljónum (án byggingarréttar) upp í að minnsta kosti 150 milljónir.

Komst í eigu ættarinnar árið 1793

Eigandi landsins er Klara Stephensen, en það var eiginmaður hennar, Ólafur Stephensen, sem seldi Reykjavíkurborg stærstan hluta eyjarinnar árið 1983.

Viðey hefur að mestu verið í eigu ættarinnar frá 1793 þegar Ólafur Stephensen stiftamtmaður settist að í Viðey árið 1793 eftir fráfall Skúla Magnússonar fógeta, en Skúli hafði staðið að byggingu Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju. Bjó Ólafur í Viðey til æviloka árið 1812 og stundaði þar búskap samhliða embættisstörfum. Magnús Stephensen sonur Ólafs tók við búinu í kjölfarið og keypti jörðina af landstjórninni árið 1817. Ólafur sonur Magnúsar tók við búskap í Viðey eftir föður sinn og bjó þar 1833-1872.

Spildan sem um ræðir er 4,5 hektarar að stærð og …
Spildan sem um ræðir er 4,5 hektarar að stærð og er vestan við Viðeyjarstofu.

Næsti sonur, Magnús Stephensen, tók við búinu og stundaði búskap til ársins 1903, en eftir það var eyjan seld til Eggerts Óskarssonar Briem og síðar til P.J. Thorsteinssonar & Co (kallað Milljónafélagið) sem hóf stórútgerð frá Viðey. Árið 1914 þegar útgerðin stöðvaðist komst eyjan aftur í eigu Eggerts sem seldi hana árið 1936 til Engilberts Hafberg, en tveimur árum síðar komst hún í eigu Stefáns Stephensen, sem var sonarsonur Magnúsar. Hluti eyjarinnar var þó í eigu Seltjarnarneshrepps, en sá hluti er nú í eigu Reykjavíkurborgar.

Stærstur hluti seldur fyrir jafngildi 640 milljóna

Það var svo Ólafur Stephensen, sonur Stefáns og eiginmaður Klöru, sem seldi stærstan hluta eyjarinnar til borgarinnar fyrir 28 milljónir árið 1983. Á verðgildi dagsins í dag nemur það um 640 milljónum króna. Var þó undanskilinn 4,5 hektara hluti sem er vestan við Viðeyjarstofu, en þar hafði verið áformað að byggja íbúðarhúsnæði. Ekkert hefur þó orðið af þeim hugmyndum. Áður hafði Viðeyjarkirkja verið gefin þjóðkirkjunni.

Mjög ólíkt verðmat

Fjölskyldan setti sig í samband við borgina í febrúar í fyrra varðandi að selja landið, en með því yrði eyjan öll í eigu borgarinnar. Óskuðu báðir aðilar eftir því að fá verðmat á landið. Jöfur og Valhöll verðmátu landið fyrir Reykjavíkurborg. Var mat Jöfurs að verðmæti landsins væri 25 milljónir, en 45 milljónir ef byggingarréttur lægi fyrir. Valhöll taldi verðmæti jarðarinnar vera 80-82 milljónir eftir því hvort byggingarréttur væri til staðar eða ekki.

Fasteignamarkaðurinn og Fasteignamiðstöðin mátu verðmæti landsins fyrir landeigendur. Var niðurstaða þeirra að verðmætið væri 150 milljónir og í tilfelli Fasteignamiðstöðvarinnar var talið að það væri að minnsta kosti verðmætið.

Viðey er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 …
Viðey er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli. Landið sem um ræðir er vestan við Viðeyjarstofu og er 4,5 hektarar. mbl.is/Sigurður Bogi

Vegna þess hve mikill munur var á verðmötunum var Ingibjörg Þórðardóttir hjá Híbýli fasteignasölu fengin til að meta eignina og var niðurstaða hennar að matið frá Jöfri og Valhöll væri of lágt en verðmat Fasteignamarkaðarins og Fasteignamiðstöðvarinnar nær lagi. Jafnframt segir hún að „í ljósi þeirrar þéttingarstefnu sem borgaryfirvöld hafa staðið fyrir geti landið hæglega orðið mun meira virði en 150 m. kr.“ Það sé þó háð óvissu um skipulag og vilja.

Fram kemur í bréfi fjármála- og áhættustýringasviðs til borgarráðs að í framhaldi af verðmötunum hafi Reykjavíkurborg og landeigandi komist að samkomulagi um kaupverð upp á 100 milljónir, en drög hafa verið gerð að kaupsamningi og afsali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert