„Eru þetta Íslendingar eða útlendingar?“

Azra Crnac furðar sig á því að starfsmanni hafi legið …
Azra Crnac furðar sig á því að starfsmanni hafi legið á að vita hvort fólkið var íslenskt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ung kona sem hringdi eftir aðstoð þegar hún varð vitni að því sem hún taldi vera heimilisofbeldi furðar sig á viðbrögðum lögregluþjóns í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Fyrsta spurningin sem hún fékk var hvort fólkið sem um ræddi væru Íslendingar eða útlendingar.

Azra Crnac var á gangi um Núpalind í Kópavogi á mánudag um klukkan tvö síðdegis þegar hún varð vitni að ungu fólki í strætóskýli og sá það sem hún lýsir sem heimilisofbeldistilburðum. Hún hringdi á Neyðarlínuna og fékk síðar samband við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar þar sem hún lýsti því sem fyrir augu bar.

„Hann jánkar við öllu sem ég segi og spyr svo: Eru þetta Íslendingar eða útlendingar? Mér fannst það voðalega sérstakt,“ segir Azra.

Fyrstu viðbrögð Özru voru að spyrja hvort það skipti einhverju máli. „Það sló hann dálítið út af laginu og ég fann að hann hefði mögulega séð að sér,“ segir Azra. Hún segist ekki ætla að geta sér til um hvað hafi búið að baki spurningunni eða hvort hún telji hugsanlegt að lögregla forgangsraði málum, meðvitað eða ómeðvitað, eftir uppruna þeirra sem eiga í hlut. 

Sagði markmiðið að fá betri lýsingu

Stuttu eftir að samtalinu lauk hringdi lögreglumaðurinn aftur í hana með útskýringar á takteinunum. Sagðist hann hafa spurt að þessu til þess að fá lýsingu á fólkinu fyrir þá sem sendir yrðu á vettvang.

Azra gefur ekki mikið fyrir þessa skýringu. „Ég er sjálf fædd og uppalin á Íslandi en á foreldra frá Bosníu. Hvort lít ég út fyrir að vera Íslendingur eða útlendingur?“ spyr hún og bætir við að lögreglumaðurinn hafi ekki beðið um neina nánari lýsingu sem gæti auðkennt fólkið betur, svo sem klæðnað, aldursbil, útlit eða þar fram eftir götunum.

„Mér fannst þetta mjög einkennilegt því þarna var ofbeldi að eiga sér stað og þá býst maður við því að það sé brugðist við, enda treystir maður á lögregluna til þess,“ segir Azra. Hún veit þó ekki hvort lögreglan brást við útkallinu þar sem hún segist ekki hafa treyst sér til að vera á staðnum lengur eða reyna að skakka leikinn. Athugasemdin snúi því fyrst og fremst að spurningunni. „Það er mjög mikilvægt að átta sig á því hvernig framkoma okkar getur haft áhrif á einstaklinga og eins hvað við segjum og gerum.“

Áður spurt um skattgreiðslur

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem spurningar lögreglumanna í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra rata í fjölmiðla, en það vakti athygli í fyrrasumar þegar lögreglumaður spurði innhringjanda sem tilkynnti um slys hvort viðkomandi liti út fyrir að vera „skattgreiðandi“.

Eftir að málið rataði í fjölmiðla sendi ríkislögreglustjóri frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að orðalagið hefði verið klaufalegt og starfsmaður sæi eftir því. Þá var jafnframt tekið fram að þetta væri ekki „viðtekið orðfæri innan lögreglunnar“ og það endurspeglaði hvorki viðhorf starfsmannsins né lögreglunnar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert