Átta af tíu vilja gefa blóð

Ný stjórn Samtakanna '78 var kjörin á aðalfundi í dag.
Ný stjórn Samtakanna '78 var kjörin á aðalfundi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Um 83,3% samkynhneigðra karlmanna telja það líklegt eða mjög líklegt að þeir yrðu virkir blóðgjafar ef þeir mættu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu Samtakanna '78 en hún var kynnt á aðalfundi félagsins í dag.

Karlmönnum er ekki heimilt að gefa blóð hafi þeir sofið hjá öðrum karlmanni. Ástæða þess er sú að taldar eru meiri líkur á að þeir séu smitaðir af HIV-veirunni. Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra hefur jafnan lýst þessu sem fordómum, en í yfirlýsingu Samtakanna '78 segir einmitt að gamalgrónir fordómar felist í reglunum þar sem kynlíf hinsegin karlmanna sé flokkað sem áhættuhegðun ólíkt kynlífi gagnkynhneigðra.

Á fundinum var samþykkt að skora á heilbrigðisyfirvöld, ráðherra, Blóðbankann og ráðgjafarnefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu að tryggja að reglum verði breytt í samræmi við stefnu stjórnvalda er varða bann við mismunun. Frekar eigi að byggja reglurnar á kynhegðun fólk en kynhneigð.

Fleiri sækja í ráðgjöf

Á fundinum var einnig kosin ný stjórn samtakanna. Þorbjörg Þorvaldsdóttir var endurkjörin formaður, en hún hefur gegnt embættinu frá 2019. Ásamt Þorbjörgu voru Agnes Jónasdóttir, Ólafur Axel Kúld og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir kjörin ný í stjórn. Fyrir eru Bjarndís Helga Tómasdóttir, Edda Sigurðardóttir og Andrean Sigurgeirsson í stjórn.

Í ræðu sinni fagnaði Þorbjörg góðu gengu þrátt fyrir heimsfaraldur.

„Á starfsári alheimsfaraldurs náðum við samt að halda uppi öflugu starfi Samtakanna ‘78,“ sagði Þorbjörg og vísaði til síðasta hluta frumvarps um kynrænt sjálfræði sem nú er í vinnslu. Börn með ódæmigerð kyneinkenni njóti nú í fyrsta sinn lagalegrar verndar gegn óafturkræfum inngripum í líkama þeirra og þar sé um kærkominn áfangasigur að ræða.

Skjólstæðingum ráðgjafarþjónustu Samtakanna '78 fjölgaði um 47% milli áranna 2019 og 2020 og voru þeir 506 talsins, en fjöldi viðtala var 1.115. Segir í ársskýrslu samtakanna að þetta sýni fram á mikilvægi þess starfs sem unnið er hjá samtökunum og nauðsyn þess að styðja betur við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert