Heimili fái tekjufallsstyrki eins og fyrirtæki

Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, …
Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, voru meðal gesta Silfursins á RÚV í hádeginu. Með þeim voru Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður, og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Skjáskot/RÚV

Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, leggur til að heimilum sem á þurfa að halda verði veittur tekjufallsstyrkur með sama hætti og fyrirtækjum. Þannig megi koma til móts við þá sem misst hafa vinnuna í kreppunni. Milljörðum hefur verið varið í að styrkja fyrirtæki sem hafa misst tekjur vegna kreppunnar.

Tekist var á um árangur stjórnvalda í kórónukreppunni í Silfrinu á RÚV í morgun og hve vel hefði gengið að verja lífskjör í faraldrinum.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, og Egill Helgason þáttastjórnandi virtust nokkuð sammála um að staðan væri ágæt. „Það er engin ofboðsleg vanlíðan eða skortur í samfélaginu,“ sagði Egill áður en hann beindi spurningum til viðmælenda.

Bergþór sagði að á vissan hátt mætti lýsa stöðunni í efnahagslífinu sem svikalogni. Lítið fall hefði orðið í ráðstöfunartekjum heimilanna og mikið verið um endurfjármögnun húsnæðislána, sem hefði sett pening út í hagkerfið. Það gæti hins vegar ekki gengið til lengdar án aðgerða, og vísaði hann í grein Ragnars Árnasonar prófessors í vikunni þar sem Ragnar sagði lífskjörin í raun tekin að láni og það yrði ekki gert endalaust. Þjóðarbúið tapaði um milljarði á dag vegna faraldursins.

Jóhann Páll sagði tal þeirra einkennast af forréttindablindu. „Stór hluti Íslendinga er ekki staddur í neinu svikalogni heldur hefur orðið fyrir gríðarlegu fjárhagslegu áfalli,“ sagði hann og vísaði í skýrslu frá Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins þar sem segir að helmingur atvinnuleitenda hafi þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna fjárhags og álíka margir eigi erfitt með að ná endum saman. Um 20.000 manns eru án atvinnu á Íslandi.

Jóhann Páll sagði kreppuna óvenjulega að því leyti að hún legðist með gjörólíkum hætti á hópa. „Þetta er K-laga kreppa þar sem einn hópurinn þýtur fram úr hinum og fær skattaafslætti til að kaupa hlutabréf á meðan hinn hópurinn sígur niður,“ sagði hann.

Kallaði hann eftir því að gripið yrði til sértækra aðgerða fyrir þá hópa sem lent hefðu verst í kreppunni. Lengja þyrfti tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta og veita heimilum fyrrnefnda tekjufallsstyrki.

Kórónukreppan hefur komið við fólk með gjörólíkum hætti.
Kórónukreppan hefur komið við fólk með gjörólíkum hætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skorti forystu á landsvísu

Egill Helgason þáttastjórnandi sagði í upphafi þáttar að það hefði komið sér á óvart að sjá Jóhann Pál sækjast eftir sæti á lista Samfylkingarinnar; hann hefði sjálfur getið sér til að hann ætti frekar heima annars staðar á vinstri vængnum, jafnvel í Sósíalistaflokknum.

Jóhann svaraði því til að hann tryði á grunngildi norrænnar jafnaðarstefnu. Launajöfnuður, sterkt almennt velferðarkerfi og þrepaskipt skattkerfi væru ekki dragbítur efnahagslífsins heldur þvert á móti forsenda þess að atvinnulíf gæti blómstrað í þágu fjöldans en ekki hinna fáu fjársterku.

„Mér líst mjög vel á þær áherslur sem Samfylkingin hefur sett á oddinn, sérstaklega síðustu mánuði,“ sagði Jóhann Páll. Sagðist hann telja að Samfylkingin hefði komið fram með mun heildstæðari og skýrari nálgun á það hvernig Ísland getur náð sér út úr kórónukreppunni en ríkisstjórnin. Máli sínu til stuðnings benti hann á að Reykjavíkurborg, undir forystu jafnaðarmanna, drægi vagninn er kæmi að opinberri fjárfestingu, líkt og fram kom á iðnþingi Samtaka iðnaðarins í janúar.

Þá sagði hann borgina sömuleiðis draga vagninn í loftslagsmálum. „Stærstu einstöku loftslagsaðgerðirnar sem er verið að ráðast í á Íslandi í dag eru þéttingarstefnan í borginni, aðalskipulagið og borgarlínan. Á meðan skortir þessa forystu á landsvísu,“ sagði Jóhann Páll.

Ríkisstjórnin stendur sterkt

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, lítur silfrið öðrum augum en hann var einnig gestur þáttarins. Eyþór sagðist telja að ríkisstjórnin hafði staðið sig nokkuð vel í kórónukreppunni. Næsta kjörtímabil myndi snúast um að endurheimta störf og ná viðspyrnu í atvinnulífinu. „Það gerum við ekki með því að auka skattheimtu. Það gerum við einmitt með því að létta byrðarnar. Þannig getum við endurreist Ísland,“ sagði hann.

Þá sagðist Eyþór telja einboðið að ríkisstjórnarflokkarnir héldu samstarfi áfram héldu þeir meirihluta í kosningunum í haust. Tók hann undir með Agli Helgasyni að nokkur ánægja væri með störf ríkisstjórnarinnar og benti á að hún hefði haldið fylgi sínu mun betur en aðrar ríkisstjórnir frá hruni.

Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup segjast 59% landsmanna styðja ríkisstjórnina. Flokkarnir sem hana mynda njóta minna fylgis eða um 45% samanlagt, en það myndi þó að öllum líkindum nægja til að fá meirihluta þingsæta vegna þeirra atkvæða sem falla dauð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert