Með krabbamein en í fullu fjöri

Sigurbjörn Árni er þekktur fyrir lifandi lýsingar á frjálsum íþróttum …
Sigurbjörn Árni er þekktur fyrir lifandi lýsingar á frjálsum íþróttum í sjónvarpi. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari á Laugum og lýsandi frjálsra íþrótta hjá RÚV, greindist með fjórða stigs sortuæxli um miðjan febrúar. Hann er í mikilli lyfjameðferð en segir að lífið haldi að öðru leyti áfram óbreytt.

Hann heldur þannig áfram að vinna. „Ég reyni kannski að stytta dagana aðeins en að öðru leyti er ég bara að gera það sem ég hef verið að gera,“ segir Sigurbjörn í samtali við mbl.is.

Sigurbjörn er ekki í hefðbundinni efna- eða geislameðferð, heldur er notast við líftæknilyf, sem eiga að virkja ónæmiskerfið í að ráðast á æxlin. Hann segir að þeim mun minni séu aukaverkanirnar af lyfjunum. Hann verður til dæmis ekki sköllóttur vegna þeirra.

Lifir lengst sem lýðnum er leiðast

Sigurbjörn skrifaði Facebook-færslu í síðasta mánuði þar sem hann lýsti útbreiðslu æxlanna og hvatti fólk þar til þess að sleppa því að vera að fletta fjórða stigs sortuæxli upp á netinu. „Ykkur mun ekki líða betur,“ skrifaði hann.

Sigurbjörn er bjartsýnn á framhaldið. „Mér líður vel (og ekki eftir atvikum). Mér skilst að ég sé mjög veikur en mér líður eins og ég sé ekkert veikur og finn ekkert fyrir þessu að öðru leyti en því að ég hef haft nokkuð stöðugan magaverk frá áramótum. 

Ég held að það sé afar ólíklegt að ég deyi á næstunni þannig að þið þurfið ekkert að drífa ykkur í heimsókn og ég minni á að það lifir lengst sem lýðnum er leiðast (og sannaðist best á pabba sem lifði í 29 ár eftir að hafa greinst fyrst með krabbamein),“ skrifar Sigurbjörn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert