Vildi fá nánari lýsingar

Embætti ríkislögreglustjóra segir að ekkert hafi komið fram sem bendir …
Embætti ríkislögreglustjóra segir að ekkert hafi komið fram sem bendir til að önnur sjónarmið en þau að fá upplýsingar, hafi legið að baki orðalaginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Embætti ríkislögreglustjóra hefur farið yfir efni símtalsins þar sem ung kona hringdi í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra vegna þess sem hún taldi vera ofbeldistilburði í strætóskýli. Var hún þá spurð um ríkisfang einstaklinganna af lögregluþjóni.

Segir í svari frá ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn mbl.is, að í umræddu samtali hafi lögreglumaður spurt hvort um væri að ræða útlendinga eða Íslendinga, þar sem hann vildi fá nánari lýsingar á umræddu fólki.

Lögregla segir þjóðerni engu máli skipta

„Embætti ríkislögreglustjóra vill taka það skýrt fram að engu máli skiptir fyrir málsmeðferð hvort um sé að ræða erlenda aðila eða Íslendinga í þeim málum sem tilkynnt er um. Allir sem leita til lögreglu eiga rétt á sömu þjónustu og virðingu,“ segir í svarinu.

Enn fremur segir að við athugun á málinu hafi ekkert komið fram sem bendir til að önnur sjónarmið en þau að fá upplýsingar, hafi legið að baki orðalaginu.

„Engu að síður telur embætti ríkislögreglustjóra ástæðu til að yfirfara og skerpa betur á verklagi þegar símtöl berast fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra,“ segir að lokum í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert