Gossvæðinu lokað klukkan 21

Geldingadalir.
Geldingadalir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Lokað verður fyrir aðgengi að gossvæðinu í Geldingadölum klukkan 21 í kvöld og stefnt að því að rýma svæðið fyrir miðnætti. Opnað verður aftur fyrir aðgang á hádegi á morgun.

Síðustu vikur hefur gossvæðið jafnan verið opið frá morgni til klukkan 18, en Otti Sigmarsson, björgunarsveitarmaður í Grindavík, segir í samtali við mbl.is að nú sé verið að prófa nýtt aðgangstímabil.

„Það einfaldar vaktaskipulagið að opna upp úr hádegi og með því að hafa opið lengur gefst frekar tækifæri til að sjá svæðið í ljósaskiptunum, sem er það sem margir vilja,“ segir Otti. Sól sest í Grindavík skömmu fyrir klukkan 21 þessa dagana og því tækifæri til að sjá gosið bæði í björtu og myrkri fyrir þá sem vilja.

Um 20 björgunarsveitarmenn standa vaktina á gosslóðum í bland við lögregluþjóna. Otti segir að vel hafi gengið að manna vaktir og sveitir víðs vegar að af landinu tekið þátt. Aðsókn á gossvæðið í dag hefur verið heldur mátuleg og allt gengið vel að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert