Konu bjargað upp úr brunni

mbl.is/Eggert

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom konu til bjargar í gærkvöldi sem hafði fallið ofan í brunn í Mosfellsbæ.

Að sögn varðstjóra var konan á gangi ásamt fleirum þegar hún stígur á það sem hún hélt að væri klaki en reyndist vera brunnlok og hafnaði hún ofan í gamalli vatnsþró. Fallið var töluvert því vatnsyfirborðið var 1,5 metrum neðar og konan náði ekki að botna og vonlaust fyrir hana að komast upp úr.

Félagar hennar kölluðu eftir aðstoð og náðu að halda í hana á meðan beðið var eftir slökkviliðinu. Konan var orðin ansi köld þegar slökkviliðsmenn náðu að hífa hana upp úr brunninum að sögn varðstjóra. 

Haft var samband við Mosfellsbæ og gerðar ráðstafanir til að tryggja að þetta endurtaki sig ekki en um gamla byggð er að ræða í sveitarfélaginu. 

Munið að hreinsa útigrillin

Slökkvilið hefur sinnt þó nokkrum útköllum á dælubíla undanfarna daga vegna elds í útigrillum.

Varðstjóri í slökkviliðinu bendir á að kannski sé kominn tími til að þrífa grillið eftir veturinn því safnskúffan vill þéttast og eins safnast upp fita á grillunum með þeim afleiðingum að það getur kviknað í þeim.

Síðasta sólarhringinn sinnti slökkviliðið átta útköllum á dælubíla og voru þau fjölbreytt en gengu vel. Sjúkraflutningarnir voru 87 og af þeim var 31 forgangsverkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert