Aftur dregið úr hraunflæði í gosinu

Enn flæðir hraunið upp úr jörðu á Reykjanesskaga.
Enn flæðir hraunið upp úr jörðu á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýjustu mælingar á hraunflæði gossins í Fagradalsfjalli sem gerðar voru í dag gefa til kynna að það nemi nú um fimm rúmmetrum á sekúndu að meðaltali.

Sú aukning sem fylgdi nýjum gosopum virðist því hafa verið skammlíf.

Heildarrúmmál hraunsins er nú metið í kringum tíu milljónir rúmmetra.

Teknar voru loftmyndir í hádeginu úr flugvél Garðaflugs með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar og unnin eftir þeim landlíkön af hraununum í Geldingadölum, Meradölum og uppi á Fagradalsfjalli þar sem nýjustu gígarnir eru.

Flatarmálið hlutfallslega vaxið lítið

Niðurstöðurnar eru þær að heildarrennsli frá öllum gígum undanfarna fjóra sólarhringa var að meðaltali tæpir 5 rúmmetrar á sekúndu.

„Þetta er nánast jafnt meðalrennsli frá upphafi,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar.

„Svo virðist sem aukningin sem kom fram í síðustu viku, samhliða opnun nýrra gíga, hafi verið fremur skammlíf. Flatarmál hrauns hefur vaxið hlutfallslega lítið síðustu sólarhringa, enda hefur kvikan sem komið hefur upp undanfarið að mestu farið í að auka þykkt hraunsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert