Gasmengun yfir norðvestanverðan skagann

Kort sem sýnir gasmengunina.
Kort sem sýnir gasmengunina. Kort/Veðurstofa Íslands

Ákveðin suðaustanátt er á gosstöðvunum í dag og gasmengun leggur því yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga.

Vindátt snýst í suðvestlæga átt á morgun sem mun beina gasmengun til norðausturs yfir höfuðborgarsvæðið.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Að sögn Hrafns Guðmundssonar veðurfræðings leggur gasmengunin í dag yfir Keflavík, Njarðvík og Voga. Mest verður hún líklega í Vogum. Ekki er gert ráð fyrir mikilli mengun á svæðinu og ekki er talin hætta á ferð.

Reiknað er með að upp undir hádegi á morgun verði komin gasmengun á höfuðborgarsvæðinu og að hún haldi áfram eitthvað fram eftir degi.

Eldgosið á Reykjanesskaga.
Eldgosið á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spáð leiðindaveðri á morgun

Aðgangur að gosstöðvunum er lokaður í dag vegna veðurs og ekki er búið að ákveða hvort þær verða opnaðar á morgun. Hrafn segir vatnsveður á svæðinu og hvassvirði. Þannig verði það í allan dag. Á morgun er einnig spáð leiðinlegu veðri þar. Eitthvað mun lægja í kvöld en snemma í fyrramálið verður veðrið skaplegt. Eftir það tekur við suðvestanátt og strekkingsvindur. Kólna mun í veðri og spáð er þremur til fjórum gráðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert