„Veira ennþá til staðar í samfélaginu“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að enn þurfi að gera ráð …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að enn þurfi að gera ráð fyrir veirunni í samfélaginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta sýnir að veiran er ennþá til staðar í samfélaginu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hann fór yfir stöðu faraldursins á upplýsingafundi almannavarna vegna Covid-19 í dag. 

„Við höfum verið að sjá nokkrum fjölda greinast innanlands á hverjum degi. Sem betur fer hafa flestir verið í sóttkví við greiningu, en þó nokkrir utan sóttkvíar,“ sagði Þórólfur. Síðastliðinn sólarhring greindist ekkert innanlandssmit, eitt innanlandssmit var í gær og þrjú daginn þar áður. Tæplega eitt þúsund sýni voru tekin í gær.

Fólk fer ekki eftir leiðbeiningum í sóttkví 

Frá því að hertar aðgerðir tóku gildi fyrir um þremur vikum hafa 90 greinst innanlands, þar af voru um 70% í sóttkví. Öll smitin voru af mismunandi undirtegundum hins svokallaða breska afbrigðis Covid-19 sem öll má rekja til landamæranna „og í flestum tilvikum til þess að fólk hefur ekki í sóttkví farið eftir þeim leiðbeiningum sem eru í gildi“, sagði Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert