Illskan ímyndunaraflinu framandi

Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi.
Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi. Kristinn Magnússon

„Það skiptir svo miklu máli að fræða fólk um helförina. Aldrei aftur! erum við vön að segja en til að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt eigi sér aftur stað er grundvallaratriði að fólk viti hvað gerðist í helförinni og hvernig siðblinda og grimmd yfirtóku heilt samfélag. Hver einasti einstaklingur sem reyndi helförina á eigin skinni skiptir máli og á skilið virðingu okkar. Grimmdin og illskan eru ímyndunarafli okkar nánast framandi og þess vegna skipta bækur sem þessi svo miklu máli enda gerir hún mjög sannfærandi grein fyrir aðstæðum og hryllingnum sem aumingja fólkið mátti búa við.“ 

Þetta segir Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi, en bókin sem um ræðir er Ég var læknir í Auschwitz eftir dr. Gisellu Perl, ungverskan lækni sem var ekki aðeins fangi í búðunum alræmdu heldur var einnig látin stunda lækningar samkvæmt fyrirmælum dr. Josefs Mengele, sjálfs Engils dauðans. Hún kom út í íslenskri þýðingu hjá Hringaná á dögunum með formála efir Feldman rabbína. 

Konur í brökkum sínum eftir að útrýmingarbúðirnar í Auschwitz voru …
Konur í brökkum sínum eftir að útrýmingarbúðirnar í Auschwitz voru frelsaðar í janúar 1945. AFP


Mjög fræg bók

„Þetta er mjög fræg bók,“ svarar Feldman, spurður hvort hann hafi þekkt til verksins áður. „Ég las hana fyrst fyrir mörgum árum en las hana aftur núna eftir að ég var beðinn að rita formálann við þessa þýðingu. Ég vildi hafa efnið ferskt í minninu. Þessi bók er mjög erfið aflestrar, en um leið ákaflega góð, mikilvæg og kraftmikil. Hér er helförinni og lífinu í Auschwitz lýst frá fyrstu hendi og við upplifum fórnarlömbin sem manneskjur en ekki sem tölfræði; sex milljónir gyðinga týndu lífi í útrýmingarbúðum nasista og þar fram eftir götunum. Við tengjum við fólkið sem hermt er af og grimmileg örlög þess. Gisella Perl var manneskja, eins og aðrir sem voru þarna í haldi, og það hefur djúpstæð áhrif á mann að kynnast persónulegri reynslu hennar af vistinni og þessari martröð. Ég var læknir í Auschwitz er gluggi inn í hjarta og huga fólks sem átti sínar vonir og drauma, alveg eins og við hin, en var svipt frelsinu og í mörgum tilvikum lífinu með þessum viðurstyggilega hætti.“

Feldman hefur skilning á því að fólk í samtímanum eigi erfitt með að tengja við hrylling helfararinnar; ekki síst þegar skoðað er úr hverju hann er sprottinn. „Þýskaland var þróað samfélag á fjórða áratug seinustu aldar; leiðandi á sviði vísinda, menningar, lista og svo framvegis. Þarna réðu engir villimenn ríkjum; alltént litu þeir ekki þannig út. Eigi að síður voru þessir upplýstu menn þess umkomnir að fremja svona hræðilega glæpi. Hvernig má það vera? Það sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að enginn er fullkominn og auðvelt er að verða hált á svellinu. Gleymum því heldur ekki að helförin átti sér ekki stað á einni nóttu; aðdragandinn var langur og strangur og það tók tíma að gera gyðinga að „djöflum“ og „ófreskjum“ með því að innleiða og viðhalda ákveðinni orðræðu sem sáði eitri meðal þýsku þjóðarinnar.“

Hann gerir stutt hlé á máli sínu.

„Við erum öll sköpuð jöfn og af sama guðinum. Enginn er öðrum æðri, allir hafa sama rétt í þessum heimi. Hinn frægi rabbíni Maimonides, sem var uppi á tólftu öld, sagði að hver og einn væri heill heimur, ekki bara einstaklingur, og þeir sem bjarga annarri manneskju bjarga um leið öllum heiminum og niðjum þeirra í framtíðinni. Þetta er góð speki að tileinka sér og fara eftir.“

Avraham Feldman rabbíni ásamt eiginkonu sinni, Mushky, og þremur af …
Avraham Feldman rabbíni ásamt eiginkonu sinni, Mushky, og þremur af fjórum dætrum þeirra. Ljósmynd/Bríet Olga


Féllu kylliflöt fyrir landinu

Feldman er fyrsti rabbíninn á Íslandi en hann er fæddur og uppalinn í New York.

„Hefðirðu sagt mér fyrir átta árum að ég ætti eftir að setjast að á Íslandi hefði ég líklega hlegið að þér; á þeim tíma vissi ég minna en ekkert um landið. Þegar ég kynntist konunni minni árið 2014 jókst hins vegar áhugi minn mikið á Norðurlöndunum en hún er sænsk; fædd og uppalin í Gautaborg. Við höfum farið víða; bjuggum til dæmis um skeið í Berlín, þar sem við tókum þátt í háskólaprógrammi sem sett var á laggirnar til að skapa stúdentum ný og spennandi tækifæri. Við fundum að þetta átti vel við okkur og þess vegna vildum við koma á stað, þar sem við gætum skipt máli. Ísland svaraði því kalli en hér er ekkert samkomuhús og hér hafði aldrei starfað rabbíni. Við komum hingað fyrst í heimsókn í desember 2017 og féllum kylliflöt fyrir landi og þjóð. Þrátt fyrir myrkrið og kuldann sáum við strax hversu fallegt landið er; það er til dæmis ekkert mál að njóta náttúrunnar hérna í borginni. Síðan er fólkið bara svo elskulegt, gestrisið og afslappað. Við vorum ekki í vafa um að þetta væri rétti staðurinn fyrir okkur og fluttum hingað í maí 2018.“

Nánar er rætt við Feldman rabbína í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert