Halla Hrund nýr orkumálastjóri

Halla Hrund Logadóttir, nýr orkumálastjóri.
Halla Hrund Logadóttir, nýr orkumálastjóri. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðarráðherra og nýsköpunarráðherra, hefur skipað Höllu Hrund Logadóttur í embætti orkumálastjóra. Hún tekur við starfinu 19. júní. Hún tekur við af Guðna A. Jóhannessyni, sem komst jafnan í fréttir fyrir krassandi jólaerindi sín.

Halla Hrund er með BA-gráðu í stjórnmálafræði, meistaragráðu í alþjóðasamvinnu með áherslu á hagfræði og orkumál og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard-háskóla með áherslu á umhverfis- og orkumál.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að Halla Hrund hafi frá árinu 2017 starfað sem framkvæmdastjóri við miðstöð norðurslóða, Arctic Initiative, við Harvard en sú stofnun beinir sjónum m.a. að áhrifum loftslagsmála. Þá hefur hún kennt á meistarastigi við sama skóla.

Halla hefur meðstýrt kortlagningu breytingaþátta norðurslóða, m.a. orkumála, á vettvangi World Economic Forum auk þess að hafa verið stofnandi og formaður Arctic Innovation Lab og starfað sem leiðbeinandi í ýmsum orkutengdum störfum. Þá hefur hún setið í stjórn Orkusjóðs, gegnst stöðu framkvæmdastjóra Iceland School of Energy og verið formaður alþjóðaþróunar við Háskólann í Reykjavík.

Fimmtán umsóknir bárust um starf orkumálastjóra, en tvær voru dregnar til baka. Hæfnisnefnd mat fimm umsækjendur hæfasta til að gegna embættinu og boðaði ráðherra þá til viðtals. Var það mat ráðherra að Halla væri hæfust til starfsins og mun hún gegna því næstu fimm árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert