„Bara stuttur endasprettur eftir“

Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í gær.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru gríðarlega ánægjulegar fréttir að sjá þetta fara fram með þessum hætti, eftir því hvernig bólusetningum miðar. Það sýnir okkur að það er bara stuttur endasprettur eftir af þessum faraldri og takmörkunum, hvort sem er innanlands eða á landamærunum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). 

„Við sjáum það líka að það hvernig þetta er sett í samhengi er bara skynsamlegt. Við höfum óskað eftir og talað fyrir að það jafnvægi yrði fundið á milli sóttvarnaaðgerðanna og hinna efnahagslegu þátta. Þarna er verið að gera það á skynsamlegan máta, það er að segja; hér verður búið að bólusetja ákveðið stóran hluta þjóðarinnar á ákveðnum tíma og áhættumatskerfi á landamærunum í samræmi við það,“ segir Jóhannes. 

Afléttingaráætlun eins og í nágrannalöndum

Hann segir afléttingaráætlunina sem kynnt var af stjórnvöldum í gær vera sams konar hugsun og við höfum séð hjá nágrannaríkjum okkar í Evrópu, til dæmis Norðmönnum. „Þar sem horft er til þess fyrst og fremst hvernig búið er að bólusetja fólk innanlands.“

Mikilvægast segir Jóhannes Þór að horfa til samhengis innanlandsaðgerða, aðgerða á landamærunum og bólusetninga. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi umræða hefur allt of oft verið slitin í sundur og menn hafa stillt innanlandsaðgerðum upp á móti aðgerðum við landamærin og það hefur einfaldlega alið á skringilegri umræðu á köflum.“

Frestun litakóðunarkerfis breytir ekki öllu

Til stóð að svokallað litakóðunarkerfi, sem segði til um sóttvarnaráðstafanir ferðalanga frá mismunandi löndum, tæki gildi 1. maí næstkomandi. Gildistöku þess hefur nú verið frestað. 

„Það sem er verið að gera þarna er að í stað þess að binda upptöku áhættumatskerfisins við beinar dagsetningar er verið að binda það við stöðu bólusetninga hérlendis. Þá segir til um hvenær farþegar frá lágáhættulöndum og miðáhættulöndum geta ferðast hingað til lands án þess að sæta sóttkví, það fari þá í samhengi við hve margir eru orðnir bólusettir hér á landi,“ segir Jóhannes Þór.

Hann segir framsetninguna vera eitthvað sem viðskiptavinir íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja erlendis geti auðveldlega áttað sig á. Framsetningin dragi frekar úr trúverðugleikavandamálum sem við hefðum annars búið við, ef afléttingum á landamærunum hefði verið frestað án skýringa.

„Bein áhrif þessara aðgerða eru ekki mikið með tilliti til bókunarstöðu. Við sjáum að áhættumatskerfið hefur fyrst og fremst áhrif á ríki innan Evrópu og þá sem ekki eru bólusettir eða með mótefnavottorð. Staða faraldursins er þannig í flestum Evrópuríkjum að það verður ekki hægt að búast við því að lönd hefðu orðið græn eða gul samkvæmt litakóðunarkerfinu í náinni framtíð. Það verður væntanlega ekki fyrr en eftir mánaðamót maí-júní. Þannig að í raun breytir þetta ekki miklu næsta einn og hálfa mánuðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert