Jólabókaflóðið „er það ruglaðasta sem ég veit um“

Þúsundþjalasmiðurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, segir að sér hafi verið alveg sama um hvað fólk myndi segja um fyrstu skáldsöguna hans, Kokkál. Til þess að skilja fantasíuna sem hann fjallar um í bókinni fór hann og hitti geðlækni.

Dóri er viðmælandi í nýjasta þætti Dagmála. Þar segir hann m.a. frá reynslu sinni af jólabókaflóðinu sem hann tók þátt í árið 2019.

„Jólabókaflóðið er hellað. Það er það ruglaðasta sem ég veit um og ég vissi það ekki,“ segir Dóri um það. 

Slökkti á Twitter og sneri ekki aftur

Í jólabókaflóðinu hentist hann á milli staða á upplestra sem gáfu mismikið í aðra hönd. Dóri segist samt sem áður elska það að lesa upp, sama hvort það sé úr skáldsögu eða ljóðabók. 

„Munurinn á því að vera með uppistand einhvers staðar er að þú færð átta sinnum meira borgað fyrir uppistandið. Það eru allir spenntir að sjá þig og ég varð samt ástfanginn af þessu ljóðskáldshlutverki. Ég elskaði að keyra með einhverjar 10 ljóðabækur í framsætinu að fara að lesa í Keflavík til þess að selja kannski fjórar og græða ekkert á því. Þetta er brekka sem er alveg rosalega gaman að labba upp.“

Það fyrsta sem Dóri gerði eftir jólabókaflóðið var að slökkva á Twitter og minnka þannig framboðið af sjálfum sér. Þangað hefur hann ekki farið aftur. 

Dóri vinnur nú að annarri skáldsögu. Hér má finna viðtalið við hann í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert